Innlent

Leigumarkaðurinn hefur batnað

Staðan á leigumarkaði hefur batnað mikið síðustu ár, að mati nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að fara yfir stöðuna á leigumarkaði og koma með tillögur til úrbóta. Nefndin var skipuð í júlí á síðasta ári og skilaði hún niðurstöðum í síðasta mánuði. Meðal þess sem nefndin gerði var að fela IMG Gallup að gera könnun á leigumarkaði og ráðuneytið safnaði upplýsingum um biðlista eftir félagslegu húsnæði. Nefndin telur niðurstöður úr könnun Gallup um meðalhúsaleigu koma verulega á óvart. Samkvæmt könnuninni er meðalhúsaleiga rúmar 44 þúsund krónur á mánuði og í meirihluta tilfella er hiti og hússjóður innifalið í leigunni. Þá kom fram í könnuninni að meirihluti leigjenda er með undir 250 þúsund krónum á mánuði í fjölskyldutekjur, 36% leigjenda eru einhleypir og barnlausir. Þá vekur það athygli að hátt í 83% telja sig búa í öruggu húsnæði. Fyrir ári voru 2700 umsækjendur á biðlista eftir félagslegu húsnæði, þar af 2400 á höfuðborgarsvæðinu. Í tillögum nefndarinnar er gert ráð fyrir húsaleigubótakerfið verði þróað til að efla enn frekar aðstoð við þá sem við lökust kjör búa. Þá telur nefndin að til álita komi að veita stofnstyrki til byggingar leiguíbúða fyrir sérstaka hópa, svo sem aldraða, öryrkja og námsmenn sem búa við erfiðar aðstæður og eru með lágar tekjur, auk þess sem leita mætti leiða til að lækka byggingarkostnað leiguhúsnæðis og auka þurfi lóðaframboð. Eins og fyrr segir telur nefndin að staðan á leigumarkaðnum hafi batnað mikið síðustu ár og framboð af nýjum leiguíbúðum hafi aldrei verið meira.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×