Innlent

Tíu milljónum úthlutað til sextán verkefna

Frá Tjarnarbúð Ráðhúss Reykjavíkur fyrr í vikunni.
Frá Tjarnarbúð Ráðhúss Reykjavíkur fyrr í vikunni.

Afhending styrkja leikskólaráðs Reykjavíkur fór fram við hátíðlega athöfn í Tjarnarbúð Ráðhúss Reykjavíkur fyrr í vikunni. Alls var úthlutað 10 milljónum króna til 16 verkefna.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs afhenti styrkina, sem ætlað er að stuðla að bættu leikskólastarfi og nýbreytni í leikskólum Reykjavíkurborgar. Fram kemur í tilkynningu að mörg verkefnanna séu samstarfsverkefni fleiri en eins leikskóla og fá því margir að njóta.

Hæsti styrkurinn í ár, sem nemur 2 milljónum króna, kom í hlut Myndlistaskóla Reykjavíkur vegna verkefnis sem snýst um að tengja saman skapandi leikskólastarf og nám yngri barna í sérskóla.

Þá fékk Rannsóknarstofa í menntunarfræðum ungra barna við Menntavísindasvið Háskóla Íslands 1,2 milljónir króna í styrk til að efla rannsóknir á menntun og uppeldi ungra barna.

Meðal annarra sem styrki hlutu eru leikskólinn Sæborg sem fékk 750 þúsund króna styrk til að þróa samvinnu milli leikskóla sem starfa samkvæmt hugmyndum Reggio Emilia og leikskólar í Seljahverfi fengu 700 þúsund króna styrk til að endurskoða samstarf leik- og grunnskóla í Seljahverfi í ljósi nýlegra rannsókna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×