Innlent

Þrjátíu ár frá snjóflóðum

Í dag eru þrjátíu ár liðin frá því að tvö snjóflóð féllu á Neskaupstað. Tólf manns fórust í flóðunum. Minningarathafnir um fórnarlömb flóðanna verða haldnar bæði í Neskaupstað og Reykjavík í dag. Alls féllu átta snjóflóð á Norðfirði þennan dag fyrir þrjátíu árum. Tvö þeirra féllu á athafnasvæði bæjarins, það fyrra rétt fyrir klukkan tvö eftir hádegi. Urðu bæjarbúar þess fyrst varir að rafmagn fór af bænum. Tuttugu mínútum seinna féll svo annað flóð. Alls lentu 25 manns í flóðunum tveimur, og nokkrir björguðust giftusamlega. Í kvöld verður minningarstund í kirkjunni í Neskaupsstað um þá tólf sem fórust. Kveikt verður á tólf kyndlum við minnismerki þeirra og er svo bæna og kyrrðarstund í kirkjunni strax á eftir. Minningarathöfn fyrir brottflutta Norðfirðinga verður haldinn í Reykjavík í dag klukkan sex. Hilmar Arason, sem er í undirbúningsnefnd fyrir athöfnina, segir að athöfnin verði í Fella- og Hólakirkju. Það verði fyrrverandi sóknarprestur Norðfirðinga, séra Svavar Stefánsson, sem sjái um athöfnina, sem verði stutt, en síðan bjóði Norðfirðingafélagið upp á kaffi á eftir. Hilmar var 12 ára gamall þegar flóðið féll og segist hafa skynjað að allt hafi farið á annan endann og fólk hafi hlaupið um. Hann segist eiga erfitt með að svara því hvort fólk komist yfir atburðinn, en hins vegar hafi fólk ekki farið að vinna úr atburðinum fyrr en löngu síðar, enda hafi ekki verið til neitt sem hét áfallahjálp í þá daga. Hilmar segir að sumir hugsi enn daglega um atburðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×