Innlent

Verðhækkanir á fölskum forsendum

Iðnaðarráðherra segir stjórnarformann Hitaveitu Suðurnesja undirbúa verðhækkanir á fölskum forsendum. Ný raforkulög hækka verð um þrjú prósent en ekki tíu eins og stjórnarformaður Hitaveitunnar haldi fram. Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Ellerti Eiríkssyni, stjórnarformanni Hitaveitu Suðurnesja, að það stefni í 10% hækkun raforkuverðs hjá félaginu um næstu áramót. Í pistli á heimasíðu Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að stjórnarformaðurinn kenni nýjum raforkulögum, sem taka gildi um áramót, um hækkunina. Þarna, segir Valgerður, er verið að reyna að knýja fram verðhækkanir á fölskum forsendum því ný raforkulög munu hafa mun minni áhrif til verðhækkunar, eða um 3% hjá HS og um 1% hjá OR. Verðhækkanir að viðbættum verðlagshækkunum sem munu nema 2%, séu alfarið á ábyrgð orkufyrirtækjanna sjálfra og nýjum raforkulögum óviðkomandi. Þetta byggir Valgerður á upplýsingum frá Orkustofnun. Ellert Eiríksson sagðist í samtali við fréttastofu ekki ætla að tjá sig um ummæli ráðherrans en von væri á greinargerð frá Hitaveitu Suðurnesja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×