Viðskipti innlent

Segja öllum upp og vonast eftir kraftaverki í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hótel Saga við Hagatorg í Vesturbænum í Reykjavík.
Hótel Saga við Hagatorg í Vesturbænum í Reykjavík.

Öllum sextíu starfsmönnum Hótel Sögu í Vesturbænum í Reykjavík var sagt upp í dag. Eitt prósent nýting var á hótelinu í apríl. Hótelstjórinn vonast eftir kraftaverki í sumar.

Uppsagnahrina ríður yfir landið á næstsíðasta virka degi mánaðarins. Ingibjörg Ólafsdóttir er hótelstjóri á Hótel Sögu og segir líklegt að önnur hótel á höfuðborgarsvæðinu séu að grípa til sambærilegra aðgerða.

Aðeins mánuður er síðan 110 starfsmenn störfuðu á hótelinu. Um fimmtíu, sem voru með eins mánaðar uppsagnarfrest, var sagt upp um síðustu mánaðamót. Hinir sextíu fóru á hlutastarfaleið stjórnvalda sem greiða 75% launa.

Bíða eftir kraftaverki

„Þetta er ömurlegt,“ segir Ingibjörg sem tilkynnti yfirmönnum um uppsögn í morgun. Boðað var til starfsmannafundar seinni partinn og í framhaldinu fengu starfsmenn uppsagnarbréf.

Allir eru á uppsagnafresti og verða því við vinnu til 1. ágúst.

„Við bíðum eftir krafaverki á þessum tíma,“ segir Ingibjörg. Algjört hrun hafi orðið í gistingu í kórónufaraldrinum. Nýtingin á hótelinu hafi verið eitt prósent í apríl og ekki von á neinum ferðamönnum í bráð. Vonandi rætist eitthvað úr veitingasölu á Mími þegar fjöldatakmarkanir verða rýmkaðar úr tuttugu manns í rými í fimmtíu á mánudaginn.

Gistingin sé hins vegar langstærsti hlutinn af veltu og framlegð hjá hótelinu. Þar sé engrar breytinga að vænta fyrr en landamæri fara að opnast.

Miklar tilfinningar

Mjög mikilvægt hafi verið að ná að segja fólki upp fyrir mánaðamót. Hótelin eigi ekki fyrir launagreiðslum endalaust án innkomu. Útspil ríkisstjórnarinnar í gær um að greiða uppsagnafrest starfsmanna hjá fyrirtækjum sem verða verulega fyrir barðinu á kórónuveirufaraldrinum skipti sköpum.

Engu að síður sé erfitt að segja upp starfsfólkinu, sem sé sérstaklega gott og yndislegt. Um sextíu starfsmenn vinna á Hótel Sögu, flestir í 60-100 prósent hlutfalli að sögn Ingibjargar.

Fólkið eigi forgang í störfin þegar birti til.

„Þetta er óskaplega erfitt og sárt. Það hafa verið mjög miklar tilfinningar í dag,“ segir Ingibjörg.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×