Innlent

Hjálpræðisherinn á leið úr miðborginni eftir aldar veru þar

Heimir Már Pétursson skrifar
Aldarlöngu safnaðarstarfi og gistiþjónustu Hjálpræðishersins í miðborg Reykjavíkur lýkur á næsta ári. Húsnæði hersins er til sölu og stefnir hann að því að reisa safnaðarheimili utan miðborgarinnar.

Hús Hjálpræðishersins var byggt árið 1916 og síðan þá hefur verið rekið þar öflugt safnaðarstarf og ýmis þjónusta við þá sem halloka hafa farið í þjóðfélaginu. Strax frá upphafi var rekin gistiþjónusta í húsinu, fyrst sjómannaheimili en síðan almenn gistiþjónusta á sumrin fyrir ferðamenn. Á veturna búa hins vegar um fjörutíu erlendir námsmenn á Hernum.

Gunnar Eide, deildarstjóri hersins, segir húsnæðið gamalt og það henti ekki lengur starfsemi Hjálpræðishersins eins og hún er í dag.

„Við stefnum að því að færa okkur aðeins frá miðborginni. Þó ekki langt í burtu en hvert liggur ekki fyrir,“ segir Gunnar

Húsið er nú til sölu og segir Gunnar Herinn vera að skoða tilboð frá aðila sem hyggist reka þar gistiþjónustu. En verðmæti hússins liggur ekki hvað síst í gistileyfinu því kvóti er á slíkri starfsemi í miðborginni. Herinn hættir hins vegar rekstri gistiheimilis á nýjum stað.

„Það hefur ekki verið auðvelt að reka gistiheimilið fjárhagslega. Það hefur verið erfitt að skila afgangi og við teljum að slík starfsemi sé kannski ekki kjarninn í okkar starfsemi,“ segir Gunnar

En það sé að boða evangelíska trú.

„Boða kærleika og gera kannski það sem aðrir söfnuðir gera því við viljum gera okkar besta gagnvart öðrum manneskjum og þá sem standa höllum fæti í samfélaginu,“ segir Gunnar

Jólaboð Hersins verður að þessu sinni í ráðhúsinu og slík boð munu halda áfram á nýjum stað.

En ætlar Hjálpræðisherinn að kaupa notað húsnæði eða byggja nýtt?

„Það hefur enn ekki verið endanlega ákveðið. Persónulega myndi ég vilja að við fengjum lóð þannig að við getum byggt nýtt hús sem svarar þörfum okkar í nútímanum ,“ segir Gunnar Eide.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×