Innlent

Vill ekki að gígarnir heiti Urður, Verðandi og Skuld

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stærsti gígurinn skömmu áður en gosinu lauk í lok febrúar 2015. Hann hefur stundum verið nefndur Baugur.
Stærsti gígurinn skömmu áður en gosinu lauk í lok febrúar 2015. Hann hefur stundum verið nefndur Baugur. Mynd/Guðbergur Davíðsson.
Nafnanefnd Skútustaðahrepps leggur til að þrír gíganna sem mynduðust  í eldgosinu í Holuhrauni hljóti nöfnin Urður, Verðandi og Skuld með tilvísun til nafnsins Nornahrauns. Örnefnanefnd leggst hins vegar gegn því og ákváð sveitarstjórn í dag að fresta ákvörðun um gíganöfn þar til síðar.

Í umsögn Örnefnanefmdar sagði um gíganöfnin Urði, Verðandi og Skuld:

„Ekki er ljóst um hvaða gíga er að ræða en þeir eru fleiri en þrír (sbr. grein á Vísi. is, „Gígurinn Baugur er þegar 100 metra hár“, en þar virðast 4 gígar sýndir á mynd og hinn fimmti nefndur í texta.) 

Sumir gíganna hafa nú þegar fengið nafn í almennri umræðu, eins og stærsti gígurinn sem kallaður hefur verið Baugur. Örnefnanefnd þarf frekari upplýsingar um fjölda gíga sem gefa þarf nafn og afstöðu þeirra hvers til annars til þess að geta gefið umsögn um nafnatillögur.

Örnefnanefnd telur þó að nöfnin Urður, Verðandi og Skuld séu ekki heppileg. Í fyrsta lagi vegna þess að gígarnir eru fleiri en þrír. Í öðru lagi vegna þess að nafnið Nornahraun, sem vísað er til í þessu samhengi, gengur ekki sem örnefni á þessu svæði.“


Tengdar fréttir

Nú mega Mývetningar velja eldstöðinni nöfn

Ný lög um örnefni voru samþykkt frá Alþingi í vikunni. Samkvæmt þeim er það nú í höndum Mývetninga að hafa frumkvæði að nafngift þeirra nýju náttúrufyrirbæra sem urðu til í eldgosinu í Holuhrauni.

Örnefnanefnd mælti gegn Nornahrauni

Nafnið Drekahraun, sem flestar tillögur voru gerðar um meðal almennings í upphafi goss, var ekki meðal þeirra fjögurra nafna sem hreppsnefnd Skútustaðahrepps greiddi atkvæði um í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×