Innlent

Greiðum skuldir ríkisins

Geir Haarde fjármálaráðherra segir rétt að nota hluta andvirði Símans til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs. "Það er góð ráðstöfun og lagar stöðuna ríkissjóðs til framtíðar," segir Geir. Gengið verður til samninga við Skipti ehf. sem var bauð hæsta verðið fyrir Símann eða 66,7 milljarða króna. Geir segir að sú upphæð verði að fullu greidd þegar búið verður að yfirfara öll atriði, meðal annars af Samkeppniseftirlitinu. Hann tekur undir með Halldóri Ásgrímssyni og Davíð Oddssyni um að nota eigi hluta andvirðisins til samfélagslegrar uppbyggingar. "Það hefur verið nefnt hátæknisjúkrahús á lóð Landspítalans. Það kostar á fjórða tug milljarða eða um helming þess sem fékkst fyrir Símann og byggingartíminn er langur. Einnig hefur verið nefnt að ráðstafa mætti hluta fjárins til uppbyggingar á fjarskiptakerfi landsmanna, samgöngumannvirkjum og fleira," segir Geir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur gagnrýnt tengsl Brynjólfs Bjarnasonar, forstjóra Símans, við einstaka bjóðendur í fyrirtækið. Þar er átt við aðaleigendur Bakkavarar sem fara með stærsta einstaka hlutinn í Skiptum ehf. Geir Haarde gefur lítið fyrir slíka gagnrýni og þykir hún ómakleg enda hljóti allir bjóðendur að sitja við sama borð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×