Innlent

Bjarni Benediktsson: „Vér mótmælum allir“

Þorbjörn Þórðarson. skrifar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar hann ávarpaði flokksmenn sína á opnum fundi í Valhöll í morgun að hann myndi ekki gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að skipta um skoðun ef hún ákveddi að afnema Icesave-lögin, sleppa þjóðaratkvæðagreiðslu og semja upp á nýtt.

Fullt var út úr dyrum í Valhöll í morgun þegar Bjarni fór yfir sviðið í Icesave-deilunni og sjónarmið Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði að staðan sem væri komin upp væri engin tilviljun, þrekvirki hefði verið unnið hjá stjórnarandstöðunni í þinginu við að halda uppi sjónarmiðum Íslendinga. Hann sagði frammistöðu ríkisstjórnarinnar hins vegar dapurlega.

Bjarni sagði að því meira sem tekið væri undir málstað Íslands, því verr liði ríkisstjórninni. Hann sagði að eftir að synjun forsetans hefði legið fyrir hefðu Bretar ekki hótað dómstólaleiðinni því þeir þyrðu ekki að fara þá leið. Bjarni sagði að leita þyrfti eftir pólitískri lausn í Icesave-deilunni, en ríkisstjórnin hefði vanrækt það.

Hann sagði að ekki mætti ala á neikvæðni, Ísland væri ekki að sökkva í sæ. Hann sagði viðbrögð Norðmanna jákvæð og að það hefðu verið gleðileg tíðindi að þeir hygðust tala fyrir máli Íslendinga gagnvart hinum Norðurlöndunum. Bjarni hvatti jafnframt til einingu og samstöðu. Hann sagði að ríkisstjórnin myndi svífast einskis til að sannfæra þjóðina til að samþykkja Icesave-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðin myndi hins vegar greiða atkvæði með hagsmunum sínum og hafna lögunum.

Bjarni vitnaði að lokum í orð Jóns Sigurðssonar, lýðveldishetju Íslands, og sagði: „Vér mótmælum allir."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×