Innlent

Flugdólgar í klandri

Delta flugvélin sem Nígeríumaðurinn reyndi að sprengja í loft upp.
Delta flugvélin sem Nígeríumaðurinn reyndi að sprengja í loft upp.

Tvær bandarískar herþotur þurftu í gærkvöldi að beina farþegaþotu af leið í innanlandsflugi í Bandaríkjunum vegna farþega sem lét ófriðlega. Um var að ræða ofurölvaðan farþega sem læsti sig inni á snyrtingu í flugvél á leið frá Atlanta til San Fransisco, en maðurinn neitaði að verða við ítrekuðum óskum flugliða um að setjast í sæti sitt.

Því tóku flugstjórar ákvörðun um að lenda og tvær F16 herþotur fylgdu flugvélinni til Colorado, þar sem maðurinn var handtekinn. Annað innanlandsflug frá Las Vegas til Hawaii endaði einnig snögglega í gær þegar flugstjóri tók ákvörðun um lendingu vegna manns sem hafði áreitt kvenkyns farþega.

Flugvélinni var lent í Los Angeles og manninum vísað frá borði og hann handtekin. Bæði atvikin endurspegla þann mikla taugatitring sem er vestanhafs í kjölfar tilraunar Nígeríumanns til að sprengja í loft upp farþegaþotu á leið til Detroit seint í síðasta mánuði, en eftir það voru öryggisreglur í flugi hertar til muna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×