Innlent

Ráðherra hvetur fólk til þátttöku í göngu gegn umferðarslysum

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra fagnar frumkvæði hjúkrunarfræðinganna Bríetar Birgisdóttur, Önnu I. Arnarsdóttur og Soffíu Eiríksdóttur sem skipulagt hafa göngu gegn alvarlegum umferðarslysum.

Gangan hefst í dag kl. 17 við Landspítalann á Hringbraut þaðan sem gengið verður að þyrlupallinum við Landspítalann í Fossvogi. Í tilkynningu til fjölmiðla hvetur ráðherra fólk til þess að taka þátt í göngunni og sýna þannig samstöðu í verki. Baráttan gegn alvarlegum slysum í umferðinni sé eilífðarverkefni sem sjáist ekki síst á því að þrátt fyrir að banaslysum hafi fækkað verulega á fyrstu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra hafi alvarlegum slysum fjölgað mjög á sama tímabili.

Auk göngunnar í Reykjavík fara fram göngur á Selfossi og Akureyri á vegum heilbrigðisstarfsfólks í þeim bæjum. Á Selfossi verður gengið frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og á Akureyri frá Fjórðungssjúkrahúsinu. Göngurnar hefjast klukkan 17 eins og í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×