Erlent

Sameinuðu þjóðirnar gagnrýna Íraka

Sjíar og Kúrdar á Íraksþingi hafa knúið fram breytingar á kosningalöggjöf landsins svo að nær ómögulegt er að fella drög að stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni 15. október. Sameinuðu þjóðirnar fordæma breytingarnar. Fyrir breytingarnar gerðu lög ráð fyrir að tvo þriðju hluta greiddra atkvæða í þremur héruðuðum þyrfti til að stjórnarskrárdrögin öðluðust ekki gildi. Þegar ljóst var að súnníar, sem leggjast mjög gegn samþykkt þeirra, eru í drjúgum meirihluta í að minnsta kosti þremur héruðum brugðu sjíar og Kúrdar á það ráð að breyta lögunum á þann veg að tvo þriðju hluta atkvæða þeirra sem eru á kjörskrá þarf til að fella plaggið. Þar sem óttast er að margir skráðir kjósendur sitji heima vegna ólgunnar í landinu er nánast öruggt að stjórnarskrárdrögin verði samþykkt en það gæti orðið vatn á myllu uppreisnarmanna. Deilan er sérlega kaldhæðnisleg í ljósi þess að stjórnarskrárferlið átti að lægja öldurnar í landinu, en nú virðist hið gagnstæða hafa orðið ofan á. Jose Aranaz, lögfræðilegur ráðunautur Sameinuðu þjóðanna í Írak segir breytingarnar óásættanlegar og atkvæðagreiðsluna marklausa í augum alþjóðasamfélagsins, en stofnunin á að tryggja að atkvæðagreiðslan fari fram eftir settum reglum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×