Erlent

Þrýst á Schröder að draga sig í hlé

Kristilegir demókratar í Þýskalandi, undir forystu Angelu Merkel, þrýstu í gær á Gerhard Schröder, fráfarandi kanslara, að falla frá kröfu um að fara sjálfur fyrir næstu ríkisstjórn. Kristilegi demókrataflokkurinn vann eitt þingsæti á Sambandsþinginu til viðbótar fram yfir jafnaðarmenn í kosningum sem fram fóru á sunnudag í kjördæmi í Dresden. Þar höfðu kosningarnar frestast um tvær vikur vegna fráfalls eins frambjóðandans. Endanleg skipting þingsæta réðst ekki fyrr en eftir að búið var að telja upp úr kjörkössum þessa síðasta af kjördæmunum 299. Niðurstaðan varð sú að CDU hefur, ásamt systurflokknum CSU, nú fjórum fulltrúum fleiri á Sambandsþinginu en Jafnaðarmannaflokkur Schröders, 226 á móti 222. Þessi niðurstaða hefur styrkt tilkall Merkel til forystu í hugsanlegri samsteypustjórn stóru flokkanna og ýtt undir vonir hennar flokksmanna um að Schröder falli frá kröfu sinni um að ­halda­ kanslarastólnum ef til slíks stjórnarsamstarfs kæmi. ?Þetta eru mjög góð úrslit fyrir CDU,? sagði Merkel þar sem hún var viðstödd hátíðardagskrá í Potsdam í tilefni af sameiningardeginum sem var í gær. Þann 3. október 1990 gekk sameining þýsku ríkjanna tveggja í gildi og þess var minnst með margvíslegum hætti í landinu. ?Ég reiði mig nú á skynsemisöfl í SPD,? sagði Merkel og annar þekktur forystumaður í þingflokki kristilegra, Günter Beckstein, hvatti Schröder til að nýta sameiningardaginn til að draga sig í hlé. Fulltrúar beggja stóru flokkanna hafa átt tvo þreifingarviðræðufundi og sá þriðji er áform­aður á morgun. Franz Müntefering, formaður SPD, gaf í skyn að þar á bæ væru menn að hneigjast til meiri sveigjanleika. ?Við teljum að Gerhard Schröder eigi að vera kanslari, en alla möguleika um forystufyrirkomulag verður að ræða í komandi viðræðum,? sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×