Erlent

Eystrasaltslandamenn þroskist

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í gær að engar líkur væru á því að rússnesk stjórnvöld myndu senda frá sér nýja yfirlýsingu um iðrun vegna leynisamnings Hitlers og Stalíns frá árinu 1939, sem leiddi til innlimunar Eystrasaltslandanna í Sovétríkin. Vísaði hann til samþykktar Sovétþingsins frá árinu 1989, þar sem segir að leynisamningurinn við Hitler hafi verið "persónuleg ákvörðun Stalíns" og í mótsögn við það sem Sovétríkin stóðu fyrir. Engar frekari ályktanir yrðu gerðar um þetta atriði. Pútín sagði jafnframt að stjórnvöld í Moskvu væru reiðubúin að undirrita landamærasamninga við Eistland og Lettland. En forsenda fyrir því væri að ráðamenn í þessum löndum "þroskuðust" og þeir yrðu að læra að setja ekki "heimskuleg" skilyrði fyrir slíkum samningum. Þessi hörðu orð Rússlandsforseta endurspegla spennuna sem ríkir nú í samskiptum landanna. Forseti Lettlands var eini leiðtogi Eystrasaltslandanna þriggja sem þáði boð Pútíns um að vera viðstaddur hátíðahöldin í Moskvu í tilefni af 60 ára stríðslokaafmælinu á mánudag. Forsetar Eistlands og Litháens sátu heima í mótmælaskyni við þá fullyrðingu Pútíns að Rauði herinn hafi "frelsað" lönd þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×