Handbolti

Valsmenn fá ekki tækifæri á að vinna Áskorendabikarinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valsmenn voru komnir í 8-liða úrslit Áskorendabikars Evrópu.
Valsmenn voru komnir í 8-liða úrslit Áskorendabikars Evrópu. vísir/bára

Keppni í Áskorendabikar Evrópu og EHF-bikarnum í handbolta hefur verið blásin af vegna kórónuveirufaraldursins.

Valur var kominn í 8-liða úrslit Áskorendabikarsins þar sem liðið átti að mæta Halden frá Noregi. Tímabilinu hjá Val er því formlega lokið. Liðið stóð uppi sem sigurvegari í Olís-deild karla en ekki var keppt um Íslandsmeistaratitilinn.

Ákveðið hefur verið að 16- og 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu karla fari ekki fram. Liðin sem voru í efstu tveimur sætum A- og B-riðils eru því komin í úrslitahelgina sem fer fram 28. og 29. desember í Köln í Þýskalandi.

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona unnu A-riðil og eru komnir til Kölnar ásamt Paris Saint-Germain, Kiel og Veszprém. Guðjón Valur Sigurðsson lék með PSG í vetur en samningur hans við félagið er að renna út.

Evrópska handknattleikssambandið ætlar að freista þess að leika 8-liða úrslitin í Meistaradeild kvenna. Ef það tekst ekki fara Metz, Esbjerg, Györi og Brest í úrslitahelgina sem fer fram í Búdapest 5. og 6. september. Rut Jónsdóttir leikur með Esbjerg sem voru krýndir danskir meistarar á dögunum.

Eins og fram kom fyrr í dag er íslenska karlalandsliðið komið á HM í Egyptalandi á næsta ári. Umspilsleikirnir um sæti á HM, sem áttu að fara fram í júní, voru blásnir af.


Tengdar fréttir

Ísland komið á HM 2021

Umspilsleikirnir um sæti á HM 2021 í handbolta karla fara ekki fram. Ísland er komið á mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×