Fótbolti

Spurð út í tíma sinn í Þýskalandi

Óskar Ófeigur Jónsson í Växjö skrifar
Margrét Lára á fundinum í dag.
Margrét Lára á fundinum í dag. Mynd/ÓskarÓ
Margrét Lára Viðarsdóttir var fulltrúi leikmanna íslenska landsliðsins á blaðamannafundi í kvöld en þá var farið yfir leik Íslands og Þýskalands sem fer fram í Vaxjö á morgun.

Nokkrir erlendir blaðamenn voru á fundinum og einn þeirra vildi fá að vita af hverju hlutirnir gengu ekki upp þegar Margrét Lára var í Þýskalandi.

Margrét Lára reyndi fyrst fyrir sér í Þýskalandi hjá FCR Duisburg tímabilið 2006-07 en svo aftur hjá Turbine Potsdam árið 2012. Í bæði skiptin stoppaði hún stutt í Þýskalandi og fór aftur til baka, 2007 til Vals en 2012 til Kristianstad í sænsku deildinni.

Margrét Lára svaraði þessu ítarlega, talaði um að hún hafi aðeins verið 18 ára í fyrra skiptið og í fyrsta sinn í burtu frá fjölskyldunni sem hafi reynst henni of erfitt. Margrét Lára sagði síðan að meiðslin hafi ráðið því að hún var ekki lengur hjá Potsdam í fyrra.

Margrét sagðist hafa verið meidd allan tímann hjá Potsdam og að þjálfarinn Bernd Schröder, sem hún segist bera mikla virðingu fyrir, hafi viljað æfa mikið sem gekk ekki upp á meðan hún var enn að glíma við meiðslin.

Margrét Lára sagði að læknarnir í Potsdam hafi ekki vitað hvað væri að angra hana en að hún sjálf hafi viljað aðgerð. Hún hafi ætlað sér að finna lausn á meiðslavandræðum sínum og að aðgerð og fjögurra mánaða hvíld hafi á endanum verið rétta lausnin.

Margrét Lára var þá spurð hvort að hún ætlaði að sýna sig og sanna fyrir þýsku liðunum sem sáu hana ekki skila sínu besta þann tíma sem hún var í Þýskalandi.

„Ég þarf ekki að sýna neinum neitt. Ég veit hvað ég er góð, liðsfélagarnir vita það og þjálfarinn held ég," sagði Margrét Lára og leit á Sigurður Ragnar sem játti og salurinn hló. 

„Ég fer ekki inn í leik með þannig hugarfar heldur ætla ég að gera mitt besta í að hjálpa liðinu og vonandi get ég gengið af velli brosandi eins og eftir Noregsleikinn," sagði Margrét Lára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×