Fótbolti

Átján ára aldursmunur

Óskar Ófeigur Jónson í Vaxjö skrifar
Katrín og Glódís Perla á æfingu íslenska landsliðsins í Växjö í gær. Þær spiluðu saman síðusta hálftímann gegn Noregi.
Katrín og Glódís Perla á æfingu íslenska landsliðsins í Växjö í gær. Þær spiluðu saman síðusta hálftímann gegn Noregi. FRÉTTABLAÐIÐ/ÓSKARÓ
Þegar Glódís Perla Viggósdóttir fæddist í lok júní 1995 var Katrín Jónsdóttir komin í stórt hlutverk í efstu deild, búin að spila fimm A-landsleiki og hafði verið útnefnd efnilegasta knattspyrnukona landsins. Nú, átján árum síðar, spila þær stöllur hlið við hlið í miðri vörn íslenska landsliðsins.

Glódís leysti Sif Atladóttur af síðasta hálftímann á móti Noregi, en íslenska liðið náði frábærum endaspretti í leiknum og tókst að tryggja sér sögulegt stig.

„Ég var óvenjufljót að sofna miðað við það að vera að spila svona seint og þá spennu sem var tengd því að spila,“ segir Katrín en ekki alveg sömu sögu var að segja af Glódísi.

Lengi að sofna

„Ég var reyndar svoítið lengi að sofna, sem er kannski bara eðlilegt. Það var ekki auðvelt að koma inn á. Ég hugsaði bara um að þetta væri tækifærið mitt,“ segir Glódís Perla. Hún var næstum því búin að skora sjálfsmark í lokin en slapp. Glódís fer að hlæja vandræðalega þegar það er rifjað upp en fyrirliðinn kemur henni strax til bjargar. „Það var aldrei nein hætta,“ segir Katrín. Fyrirliðinn er ánægð með nýja miðvörðinn.

„Við erum búnar að spila svolítið saman í ár og hún hefur líka spilað með Sif. Hún er búin að standa sig rosalega vel, sem er alveg frábært,“ segir Katrín en er næsta Kata komin? „Ég segi bara að það sé næsta Glódís komin,“ segir Katrín létt.

Þær Katrín og Glódís eiga svo sannarlega margt sameiginlegt. Báðar byrjuðu þær að sparka bolta í Kópavoginum (Katrín með Breiðabliki og Glódís Perla með HK), skiptu síðan yfir í Stjörnuna (Katrín lék með Stjörnunni sumarið sem Glódís fæddist) og voru kosnar efnilegustu leikmenn deildarinnar árið sem þær fengu bílprófið (Katrín 1994 og Glódís Perla 2012). Þær spiluðu sinn fyrsta landsleik þegar þær voru á sautjánda aldursári og báðar léku þær fyrsta landsleikinn sinn á móti Skotum. Þær eiga það einnig sameiginlegt að hafa spilað á bæði miðju og í framlínu þótt Glódís Perla hafi miklu miklu fyrr fært sig aftar á völlinn.

Les leikinn mjög vel

„Við eigum það líka sameiginlegt að okkur finnst bjúgu rosalega góð,“ segir Katrín og Glódís Perla tekur undir það skellihlæjandi. En hvað segir Katrín um Glódísi?

„Hún er gríðarlega efnileg og er í raun bara orðin mjög góð. Hún hefur margt sem þarf til að vera góður varnarmaður. Hún er sterk í návígi, góð í skallaboltum og les leikinn vel, sem er afar mikilvægt sem miðvörður,“ segir Katrín um Glódísi. En hvað hefur Glódís lært mest af Katrínu þann tíma sem þær hafa verið saman í landsliðinu?

„Ég held að ég sé búin að læra allt sem ég get af Kötu, bæði hvað varðar fótboltann og hvernig karakter hún geymir. Það væri alls ekki leiðinlegt að eiga svona feril,“ segir Glódís. „Hún þorir ekkert að segja neitt annað,“ heyrist í Katrínu, en Glódís ætti að eiga í henni fullkomna fyrirmynd. „Ég held að stefnan sé bara að vera jafnlengi í þessu,“ segir Glódís brosandi.

Katrín ætlar að kveðja í haust og verður ekki aftur snúið úr þessu. „Auðvitað væri ég alveg til í að spila þangað til ég verð fimmtug en maður verður að fara að hlusta á líkamann sinn,“ segir Katrín, sem nýtur síðustu leikjanna til fullnystu.

En er Glódís orðin leið á umræðunni um hversu ung hún er? „Mér finnst ég ekki vera svo ung lengur. Við getum sagt að ég sé búin að vinna mér inn einhverja reynslu og það mun nýtast mér. Það losaði aðeins um stressið að fá að koma inn á gegn Noregi,“ segir Glódís, klár í næsta leik og jafnvel í næstu átján ár í íslenska landsliðinu. Það verður samt verðugt og vandasamt verkefni að skila jafnmiklu til íslenska kvennalandsliðsins og hin eina og sanna Katrín Jónsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×