Innlent

Í öryggisgæslu vegna hnífstunguárásar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt 15. nóvember 2013 á heimili sínu veist að öðrum manni með hnífum þar sem hann svaf á sófa í stofu, og skorið hann á háls og stungið hann í brjóstkassann
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt 15. nóvember 2013 á heimili sínu veist að öðrum manni með hnífum þar sem hann svaf á sófa í stofu, og skorið hann á háls og stungið hann í brjóstkassann vísir/gva
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm yfir manni sem í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra var sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps og þess í stað gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Var hann sagður alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Maðurinn áfrýjaði dómi héraðsdóms og krafðist þess að sér yrði ekki gert að sæta öryggisgæslu og óskaði eftir vægari úrræðum.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa aðfaranótt 15. nóvember 2013 á heimili sínu veist að öðrum manni með hnífum þar sem hann svaf á sófa í stofu, og skorið hann á háls og stungið hann í brjóstkassann. Sá hlaut um það bil átta sentímetra langan skurð á hálsi vinstra megin og um það bil tveggja sentímetra langt og 1,5 sentímetra djúpt stungusár vinstra megin á brjóstkassa.

Málavextir eru þeir að umrædda nótt var komið með mann á slysadeild og var hann þá með umrædda áverka. Lögregla var kölluð til og skýrði maðurinn frá því að ákærði hefði boðið sér á heimili sitt. Þar hefði hann gefið sér áfengi í glas og sett ofan í það muldar töflur. Í kjölfarið kvaðst hann hafa lognast út af en vaknað við að ákærði var að stinga sig.

Ákærði játaði brot sitt og kvaðst hafa heyrt raddir sem sögðu honum að gera það. Hann var í kjölfarið vistaður á geðdeild að fyrirmælum læknis og sviptur sjálfræði í tólf mánuði frá 5. desember 2013 samkvæmt úrskurði er kveðinn var upp þann sama dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×