Innlent

Vill auka sveigjanleika varðandi eftirlaunaaldur

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
Hækkandi lífaldur þjóðarinnar og betri heilsa kallar á aukinn sveigjanleik varðandi eftirlaunaaldur að mati framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða. Eignir sjóðanna jukust um tæpa þrjú hundruð milljarða í fyrra.

Afkoma lífeyrissjóðann á síðasta ári var sú næst besta frá hruni samkvæmt áætlun sem Landssamtök lífeyrissjóða kynntu í dag. Raunávöxtun nam 7,2 prósentum og í heild jukustu eignir um 10 prósent eða tæpa 300 milljarða.

Hvað þýðir þessi afkoma fyrir lífeyrisþega?

„Hún þýðir það að lífeyrissjóðirnir eiga að geta staðið undir þeim loforðum sem þeir eru að gefa í dag þannig að það þarf ekki að skerða greiðslur og tryggingafræðileg staða batnar,“ segir Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdstjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hækkand lífaldur þjóðarinnar kann að hafa áhrif á stöðu lífeyrissjóðanna á næstu áratugum og Þórey segir nauðsynlegt að auka sveigjanleika fólks varðandi eftirlaunaldur.

„Það er staðreynd að við erum að lifa lengur sem er mjög jákvætt en það kostar pening. Fólk er heilbrigðara og getur unnið lengur og við finnum líka að það er krafa margra að fá að vinna lengur. Núna er staðan þannig að annað hvort ertu lífeyrisþegi eða á vinnumarkaði. Það þarf að horfa á þetta með meiri sveigjanleika þannig að fólk geti hugsanlega verið á lífeyri og í vinnu,“ segir Þórey. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×