Innlent

Forsætisráðherra segir ESB hrjáð af innanmeinum

Heimir Már Pétursson skrifar
Forsætisráðherra sagði að Viðskiptaþingi í dag að Evrópusambandið væri veikt og hrjáð af innanmeinum en Íslendingar ættu í fjölbreyttu sambandi við umheiminn utan þess. Þá hefði föllu bankarnir nánast þryfist í bómull innan haftanna sem brýnt væri að aflétta.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ávarpaði viðskiptaþing Viðskiptaráðs á Hilton-Nordica í dag og ræddi meðal annars hvernig hagræða mætti í opinberum rekstri og hvernig trúverðug stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefði m.a. leitt til betra lánshæfismats ríkissjóðs. Nauðsynlegt væri að efla nýsköpun og verðmætasköpun enda hafi meira fé verið varið til þeirra mála.

En forsætisráðherra ræddi einnig stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

„Fá ríki eða ríkjasambönd njóta jafn þéttriðins fríverslunarnets og Ísland. Ríkin eru að nálgast 70 þar sem viðskiptahindrunum af ýmsu tagi hefur verið rutt úr vegi,“ sagði Sigmundur Davíð.

Lega landsins, náttúruauðlindir og uppbygging hagkerfisins gerðu það hins vegar ekki eftirsóknarvert að ganga í Evrópusambandið, eins og meirihluti Íslendinga hefði verið sammála um í langan tíma. Staða Evrópusambandsins væri veik og sambandið hrjáð af innanmeinum. Upptaka evru myndi leysa úr læðingi ný vandamál í stað þeirra gömlu.

„Íslenska hagkerfið er örsmátt og opið fyrir utanaðkomandi sveiflum. Við getum síður búist við langvarandi efnahagslegum stöðugleika en margar aðrar þjóðir. Við mætum ekki þessum vanda með því að gefa frá okkur möguleikana á að stjórna eigin peningamálum. Enda myndi það leiða til þess að sveiflur á vinnumarkaði tækju við af gengisswveiflum,“ segir forsætisráðherra.

Þá vék Sigmundur Davíð að gjaldeyrishöftunum og sagði brýnt að aflétta þeim. Slitastjórnir föllu bankanna hefðu hins vegar ekki lagt fram neinar raunhæfar leiðir í þeim efnum, en þess í stað rekið öfluga hagsmunagæslu með fjölda lögfræðinga og almannatengla á launum.

„Og innan haftakerfisins hefur svo verið búið um þá í bómull má segja og þeir fóðraðir vel. Og það þótt jafnvel hefði verið tilefni til að sekta fyrirtækin frekar en búa þeim þessar aðstæður, rétt einis og gert var í mörgum öðrum löndum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×