Innlent

Aspartam ýti ekki undir krabbamein

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Aspartam og niðurbrotsefni þess eru örugg í því magni sem fólk neytir efnisins í fæðu. Matvælastofnun Evrópu (ESFSA) ) birti í dag áhættumat á sætuefninu (E 951). Þetta kemur fram á vefsíðu Matvælastofnunar.

Þetta er fyrsta heildstæða áhættumatið sem þessi stofnun gerir á aspartami, en áður hefur hún metið nýjar rannsóknaniðurstöður, sem komið hafa fram eftir að stofnunin var sett á laggirnar. EFSA hefur lagt mat á allar fáanlegar vísindarannsóknir á aspartami og niðurbrotsefnum þess, bæði á mönnum og dýrum.

Við áhættumatið var þeirri tilgátu hafnað að aspartam geti valdið skemmdum á genum eða ýtt undir krabbamein.

Einnig var það niðurstaða stofnunarinnar að aspartam skaði ekki heila né taugakerfi og hafi ekki áhrif á hegðun eða atferli barna eða fullorðinna. Jafnframt að aspartam hafi ekki neikvæð áhrif á fóstur í því magni sem þess er neytt samkvæmt ÁDI-gildi (ásættanleg dagleg inntaka).

Niðurstaða stofnunarinnar felur í sér að ekki er ástæða til að breyta ÁDI-gildi sem er 40 milligrömm á kíló á líkamsþunga á dag. Það gildi á þó ekki við um fólk sem hefur sjaldgæfan efnaskiptasjúkdóm eða fenýlketónúríu (PKU).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×