Innlent

Deilt um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Stefán
„Grunntónn fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2014, sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar nú í kvöld, er kraftur og uppbygging í skólamálum og almennri þjónustu við íbúa bæjarins, áframhaldandi jafnvægi í rekstri og  markviss niðurgreiðsla skulda.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ, en önnur umræða fjárhagsáætlunar fór fram í bæjarstjórn í dag. Engar gjaldskrárhækkanir eru fyrirhugaðar í fræðslu- og fjölskyldumálum. Þá munu áhrif systkinaafsláttar ná til fleiri þjónustuþátta en áður og álagningahlutfall fasteignaskatts lækkar annað árið í röð.

„Með því vill Hafnarfjarðarbær koma betur til móts við barnafjölskyldur og leggja sitt af mörkum til að draga úr verðbólgu og auka kaupmátt.“

„Það er ánægjulegt að skila af sér fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 sem sýnir árangur markvissrar vinnu núverandi meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og þá stefnufestu sem verið hefur í rekstri bæjarins á kjörtímabilinu. Við erum að skila góðum árangri í fjármálastjórn eins og sést með 2,5 milljörðum sem veltufé frá rekstri sem m.a. eru notaðir til að greiða niður lán og skuldbindingar sveitarfélagsins. Í fjárhagsáætluninni eru skýr skilaboð um kraft og uppbyggingu á fjölmörgum sviðum“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri í tilkynningunni.

„Rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrir árið 2014 er jákvæð um 613 milljónir kr. og rekstrarniðurstaða A hluta 266 milljónir kr. Heildareignir samstæðunnar eru áætlaðar um 48,4 milljarðar kr. í árslok 2014. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 40,8 milljarðar kr. og eigið fé um 7,6 milljarðar kr. Áætlað veltufé frá rekstri A hluta er um 1,7 milljarður kr. og samantekið fyrir A og B hluta 2,5 milljarðar kr. sem er rúmlega 14% af heildartekjum. Á árinu 2014 er ráðgert að greiða niður lán og skuldbindingar um 1,9 milljarða kr.“

Á vef bæjarins má nálgast tölulegar upplýsingar og greinargerð með fjárhagsáætluninni.

Kosningavetur framundan

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði lögðu fram bókun og tillögur, við umræðuna sem fram fór í dag, um „raunhæfar leiðir til að skuldir lækki um allt að fimm milljarða króna á árinu 2014“.

„Sjálfstæðismenn leggja fram tillögur sem gera ráð fyrir að við niðurgreiðslu skulda muni alls sparast 500 milljónir króna í fjármagnskostnað næstu tvö árin. Viðsnúningur verður að hefjast í Hafnarfirði. Fjárhagsáætlun Samfylkingar og VG er óábyrgur kosningavíxill,“ segir í tilkynningu frá Sjálfstæðismönnum í Hafnarfirði.

Í bókuninni telja þeir brýnasta hagsmunamál bæjarfélagsins að minnka skuldirnar. „Eins og staðan er nú er skuldastaðan mjög íþyngjandi, fjármagnskostnaður er gríðarlegur og gengisáhætta mikil.“

„Framlögð fjárhagsáætlun Samfylkingar og VG ber þess öll merki að kosningavetur er framundan. Slakað er á aðhaldi í rekstri bæjarins, boðaðar eru miklar framkvæmdir án þess að fjármögnun liggi fyrir og keyra á fram úr þeirri aðlögunaráætlun sem unnið hefur verið eftir til að ná megi skuldahlutfalli niður á næstu árum. Fullkomin afneitun á fjárhagsvandanum blasir við.“

„Hafnarfjörður hefur verið í hópi þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telur að fylgjast þurfi mest með. Mikilvægt er að leita leiða til að viðsnúningur geti hafi hafist í Hafnarfirði, nauðsynlegt er að styrkja fjárhag sveitarfélagsins til framtíðar líkt og sjálfstæðismenn hafa ítrekað lagt til á kjörtímabilinu.“

Meðal tillagna sjálfstæðismanna er að selja hlut bæjarins í HS-veitum, fresta 1.000 milljóna lántöku vegna nýs hjúkrunarheimilis og selja skuldabréf sem gefið er út af Magma energy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×