Skoðun

Er góð hug­mynd að taka út sér­eignina?

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Meðal þeirra aðgerða sem stjórnvöld hafa ráðist í til að bregðast við efnahagsáhrifum COVID-19 veirunnar er að opna fyrir úttekt séreignarsparnaðar.

Heimildin er á þennan veg:

  • Opin öllum óháð aldri
  • Hámarksútgreiðsla er 800.000 kr. á mánuði í 15 mánuði = 12 milljónir króna
  • Greiddur er skattur af úttektinni
  • Úttektin hefur ekki áhrif á greiðslur barnabóta, vaxtabóta og ellilífeyris TR

Þessi tímabundna heimild kemur ekki til af góðu heldur er ætlað að létta undir með þeim sem sjá fram á fjárhagslega erfiðleika vegna ástandsins.

Hvers vegna greiðum við í séreignarsparnað?

Ef við viljum megum við greiða 2-4% af launum okkar í viðbótarlífeyrissparnað (séreignarsparnað) og eigum þá rétt á 2% framlagi frá vinnuveitanda á móti. Þetta er í raun launahækkun og því ættu allir að greiða í séreignarsparnað, þó ekki sé nema til þess að fá þessa viðbótargreiðslu. Auk þess hefur um skeið verið boðið upp á sérstaka ráðstöfun séreignar inn á íbúðalán eða til útborgunar í fyrstu íbúð og er slíkt skattfrjálst.

Séreignarsparnaður er annars að öllu jöfnu bundinn til 60 ára aldurs og þá er úttekt frjáls. Ástæða þess er að ef ekki er sparað með þessum hætti er hætt við að tekjur okkar lækki til muna þegar við hættum að vinna þar sem reglulegar greiðslur úr lífeyrissjóðum eru yfirleitt talsvert lægri en launin okkar voru á vinnumarkaði.

Séreign er með öðrum orðum mikilvægur þáttur þess að hafa það betra þegar við verðum eldri og það hefur ekki breyst, þrátt fyrir þessa tímabundnu heimild til úttektar.

Kærkomið í brýnni neyð

Þar sem séreign mun reynast okkur afar dýrmæt þegar við verðum eldri er stór ákvörðun að nýta þá fjármuni í dag. En nú er hætt við að fjárhagur margra muni versna, vonandi bara tímabundið, en höggið getur orðið þungt. Þá getur verið dýrmætt að geta nýtt séreignina til að komast í gegnum erfiðasta skaflinn. Úttekt við slíkar aðstæður er ekki bara skiljanleg heldur getur verið æskileg og nauðsynleg.

Þau sem ekki hafa brýna þörf á úttekt ættu þó að hafa upphaflegt hlutverk séreignar í huga. Með úttekt í dag getur miklum hagsmunum í framtíð verið fórnað. Þó opnað sé fyrir úttekt tímabundið er ekki þar með sagt að við ættum öll að nýta þá heimild.

Höfundur er deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×