Körfubolti

Hamar telur ákvörðun KKÍ ólöglega

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Maté Dalmay, þjálfari Hamars, sagði stjórn KKÍ til syndanna í Sportinu í dag.
Maté Dalmay, þjálfari Hamars, sagði stjórn KKÍ til syndanna í Sportinu í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Körfuknattleiksdeild Hamars telur ákvörðun Körfuknattleikssambands Íslands ólöglega en sambandið ákvað að keppni í körfubolta hér á landi yrði ekki kláruð. Þýddi það að Hamar fór ekki upp í Domino´s deild karla sem allt stefndi í.

Þjálfari Hamars, Maté Dalmay, hefur látið skoðun sína á málinu í ljós. Þar á meðal í Sportinu í dag, þætti sem Henry Birgir Gunnarsson og Kjartan Atli Kjartansson stýra á Stöð 2 Sport. 

Þar sagði hann meðal annars eftirfarandi: „Mér finnst eðlilegt að taka sér svolítið langan tíma í svona ákvörðun. Ræða þetta fram og til baka og kasta hugmyndum á milli sín eins og allar deildir í heimi eru að gera. Það liggur ekkert á að taka þessa ákvörðun. Það eru sjö mánuðir í næsta tímabil. Mér finnst langeðlilegast ef formenn allra liða væru á þessum fundi og menn komist að niðurstöðu þar sem allir taka eitthvað högg á sig í staðinn fyrir að láta Grindavík kvenna og Hamar karla taka allt höggið á sig á meðan allir hinir eru grenjandi úr hlátri.“

„Stundum er talað um að taka bestu verstu ákvörðunina. Þetta var versta versta ákvörðunin. Þetta er ekki eins og Hannes [S. Jónsson, formaður KKÍ] talaði um í fjölmiðlum, rosalega erfið og ósanngjörn ákvörðun. Þetta er ekki erfið eða ósanngjörn ákvörðun fyrir neinn. Það er enginn rökstuðningur á bak við þetta, engar útskýringar. Þetta bitnar ekkert á öllum. Þetta bitnar bara á okkur og Grindavík kvenna.“

Nú hefur stjórn körfuknattleiksdeildar Hamars tekið undir með þjálfara liðsins en tilkynninguna má lesa hér að neðan.

Tilkynning Hamars

Í tilefni ákvörðunar stjórnar KKÍ um lok keppnistímabilsins 2019/2020 í körfuknattleik.

Stjórn körfuknattleiksdeildar Hamars lýsir yfir óánægju sinni með ákvörðun stjórnar KKÍ um það hvernig keppnistímabilinu 2019/2020 er lokið.

Við fordæmum vinnubrögð stjórnar KKÍ, úrslit eiga að ráðast á leikvelli en ekki við fundarborð KKÍ.

Ákvörðun stjórnar KKÍ er að okkar mati ólögleg.

Við hvetjum stjórn KKÍ til að endurskoða ákvörðun sína.

Með vinsemd og verðingu

f.h. körfuknattleiksdeildar Hamars

Lárus Ingi Friðfinnsson, formaður


Tengdar fréttir

Kjartan Atli: Hefði núllað þetta tímabil út

Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Domino´s Körfuboltakvölds bauð upp á sitt „hot take“ á ákvörðun KKÍ um að færa lið á milli deilda þótt að úrslit mótsins væru ekki ráðin.

Hannes: Sparið stóru orðin

„Í heildina skynja ég meiri ánægju,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í Sportinu í dag þegar hann var spurður hvernig formenn körfuknattleiksdeilda landsins hefðu tekið ákvörðun stjórnar KKÍ um lok tímabilsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.