Körfubolti

Hannes: Sparið stóru orðin

Sindri Sverrisson skrifar

„Í heildina skynja ég meiri ánægju,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í Sportinu í dag þegar hann var spurður hvernig formenn körfuknattleiksdeilda landsins hefðu tekið ákvörðun stjórnar KKÍ um lok tímabilsins.

Orð Hannesar féllu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í dag og má sjá hluta innslagsins hér að ofan. Síðdegis hafði Máté Dalmay, þjálfari Hamars, uppi stór orð á mbl.is um hve hræðileg honum þætti niðurstaða stjórnar KKÍ.

„Þeir sem eru óánægðir eru auðvitað þeir sem lenda í því að annað hvort falla eða að fara ekki upp um deild,“ sagði Hannes í Sportinu í dag. „Ég skil það mjög vel en jafnframt bið ég líka fólk um að hafa pínu skilning á því og spara stóru orðin, vegna þess að við vitum alveg að þetta er að hafa áhrif á einstaka félög. Færri félög en fleiri, þetta er að hafa áhrif á ekki það mörg félög, en ég bið fólk um að spara stóru orðin,“ sagði Hannes.

„Þetta á ekki bara við í körfubolta. Það á við almennt hjá okkur í dag. Það eru ofboðslega margir sérfræðingar, sem þurfa samt ekki að sitja við það að taka ákvarðanir, og hafa vit fyrir okkur öllum. Leyfum hverri og einni einingu í samfélaginu að taka sínar ákvarðanir og berum virðingu fyrir því. Við getum verið sammála eða ósammála en við þurfum ekki að fara út á torg og vera með stór orð, því það er best fyrir alla að hafa sem fæst há orð um hlutina,“ sagði Hannes. Innslagið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×