Erlent

Skólum og verslunum lokað í Þýskalandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Angela Merkel kynnti í dag hertar aðgerðir sem taka gild á miðvikudaginn í Þýskalandi.  
Angela Merkel kynnti í dag hertar aðgerðir sem taka gild á miðvikudaginn í Þýskalandi.   EPA/RAINER KEUENHOF

Angela Merkel Þýskalandskanslari boðaði í dag verulega hertar aðgerðir í Þýskalandi vegna covid-19. Meðal annars stendur til að loka verslunum, skólum og barnadaggæslu. Nýjar reglur munu taka gildi frá og með næsta miðvikudegi að því er Deutsche Welle greinir frá.

Ráðstafanirnar sem taka gildi á miðvikudag verða í gildi að minnsta kosti til 10. janúar í von um að draga úr útbreiðslu covid-19, í þessari annarri bylgju faraldursins í Evrópu. Mikið álag hefur verið á heilbrigðiskerfið í Þýskalandi líkt og víða annars staðar.

Viðbúið er að hertar ráðstafanir muni hafa gríðarleg áhrif á verslunarmenn, menntakerfið og almenning allan nú í aðdraganda jólanna. Allar „ónauðsynlegar verslanir og þjónusta“ skulu vera lokaðar til 10. janúar og má þar meðal annars nefna hárgreiðslustofur sem hafa verið opnar undanfarið.

Þá eru skólar hvattir til að senda nemendur heim og halda áfram kennslu um netið auk þess sem mælst er til þess að jólafríið verði lengt til 10. janúar. Leikskólum verður jafnframt lokað en foreldrum verður gert kleift að taka launað leyfi til að annast börn sín.

Atvinnurekendur eru hvattir til að láta starfsfólk vinna heima og neysla áfengis á almannafæri verður óheimil. Trúarstofnunum verður heimilt að halda starfsemi gangandi og halda helgiathafnir sé öllum hreinlætis- og sóttvarnareglum fylgt en fjöldasöngur verður ekki heimilaður.

Ríki þýska sambandsríkisins hafa ennþá hug á að slaka á reglum milli 24. og 26. desember svo nánasta fjölskylda geti varið jólunum saman. Hvert heimili má í þessa þrjá daga bjóða allt að fjórum fullorðnum frá öðrum heimilum í heimsókn en aðeins úr nánustu fjölskyldu. Börn undir fjórtán ára aldri teljast ekki með.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.