Fyrr í dag var staðfest að NBA-meistarar Los Angeles Lakers hefðu sótt Marc Gasol – hinn Gasol bróðirinn - frá Toronto Raptors. Nú hefur Markieff Morris, einn af fjölmörgum leikmönnum sem blómstruðu hjá Lakers á síðustu leiktíð, endursamið við félagið.
Stefnir hann á að verja titilinn með félaginu. NBA deildin í körfubolta hefst nú um jólin eftir einkar stutt hlé milli tímabila.
Run it back! #Lakeshow
— Keef Morris (@Keefmorris) November 23, 2020
Hinn 31 árs gamli Morris ku vera semja við Lakers á lágmarkssamning og því ætti félagið að geta sótt fleiri leikmenn ef þess þarf. Morris kom óvænt til Englaborgarinnar í febrúar á þessu ári. Hann sýndi sig svo og sannaði í úrslitakeppninni þar sem hann fór meðal annars mikinn er Lakers vann Houston Rockets samtals 4-1.
Eins og áður sagði hefur Lakers farið mikinn á leikmannamarkaðnum að undanförnu. Þeir Dwight Howard, Rajon Rondo, Danny Green og JaVale McGee eru allir farnir frá félaginu. Á móti kemur að Dennis Schröder, Montrezl Harrell, Wesley Matthews og Marc Gasol eru allir mættir til að aðstoða Lakers við að verja NBA-meistaratitilinn.
Stjörnumiðherjinn Anthony Davis á enn eftir að skrifa undir nýjan samning við Lakers en talið er að það gerist fyrr en seinna.