Körfubolti

Lakers fær hinn Gasol-bróðurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marc Gasol freistar þess að verða NBA-meistari með Los Angeles Lakers eins og hann varð með Toronto Raptors.
Marc Gasol freistar þess að verða NBA-meistari með Los Angeles Lakers eins og hann varð með Toronto Raptors. getty/Douglas P. DeFelice

Spænski miðherjinn Marc Gasol er á förum til NBA-meistara Los Angeles Lakers frá Toronto Raptors. Hann gerir tveggja ára samning við Lakers. NBA-véfréttin Adrian Wojnarowski greinir frá þessu.

Eldri bróðir Gasols, Pau Gasol, lék með Lakers við góðan orðstír á árunum 2008-14 og varð NBA-meistari með liðinu 2009 og 2010. Nú fær yngri bróðir hans tækifæri til að leika sama leik.

Lakers valdi Marc Gasol í nýliðavalinu 2007 en skipti réttinum á honum til Memphis Grizzlies fyrir bróður hans. Marc Gasol lék með Memphis á árunum 2008-19 og var valinn varnarmaður ársins í NBA tímabilið 2012-13.

Um mitt tímabil 2018-19 var Gasol skipt til Toronto. Hann átti stóran þátt í því að liðið varð NBA-meistari í fyrsta sinn eftir sigur á Golden State Warriors, 4-2, í úrslitaeinvíginu.

Gasol, sem er 35 ára, er ætlað að fylla skarðið sem Dwight Howard skilur eftir sig hjá Lakers. Til að búa til pláss fyrir Gasol hjá sér skipti Lakers miðherjanum JaVale McGee og valrétti til Cleveland Cavaliers í skiptum fyrir Jordan Bell og Alfonzo McKinnie.

Á síðasta tímabili var Gasol með 7,5 stig, 6,3 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×