Handbolti

Hákon Daði: Hjartað var á milljón

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Daði Styrmisson nýtti óvænt tækifæri með íslenska landsliðinu í kvöld frábærlega.
Hákon Daði Styrmisson nýtti óvænt tækifæri með íslenska landsliðinu í kvöld frábærlega. vísir/vilhelm

Hákon Daði Styrmisson skoraði átta mörk úr átta skotum í sínum fyrsta keppnisleik með íslenska landsliðinu þegar það vann stórsigur á Litháen, 36-20, í kvöld.

„Það sást kannski ekki inni á vellinum en hjartað var alveg á milljón. Þetta var ótrúlega erfitt fyrstu tíu mínúturnar en svo kom þetta. Það er geggjað að hitta á svona dag þar sem er nóg af færum,“ sagði Hákon við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn í Laugardalshöllinni.

Eyjamaðurinn skoraði úr fyrsta skotinu sínu í leiknum og leit ekki um öxl eftir það.

„Þá fékk maður sjálfstraust og stressið fór af manni. Það er geggjað að spila með þessum leikmönnum, þeir geta allir losað boltann niður í hornið og maður þarf bara að nýta þau færi sem maður fær. Það eru bara forréttindi að fá að vera hérna. Að fá leik og njóta þess,“ sagði Hákon.

Hann lék við hlið fyrirliðans Arons Pálmarssonar sem var duglegur að ræða við Eyjamanninn á meðan leiknum stóð.

„Hann var bara að hjálpa mér, leiðbeina mér og skamma mig þegar þess þurfti,“ sagði Hákon.

Hann dreymir um að komast í atvinnumennsku og frammistaðan í leiknum í kvöld hlýtur að hjálpa til við að sá draumur rætist.

„Það er alltaf markmiðið. Glugginn kom núna og skipti máli að nýta hann sem best. En markmiðið er að reyna að komast langt í þessu og halda sætinu,“ sagði Hákon að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.