Handbolti

Guðmundur: Slógum flest vopn úr höndum þeirra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hrósaði íslenska liðinu í hástert eftir leikinn.
Guðmundur Guðmundsson hrósaði íslenska liðinu í hástert eftir leikinn. vísir/vilhelm

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, hafði yfir litlu að kvarta eftir stórsigurinn á Litháen, 36-20, í undankeppni EM í kvöld.

„Ég er mjög ánægður og þetta var til fyrirmyndar. Við vorum mjög einbeittir, ég fann það strax í þessum stutta undirbúningi. Menn voru vel með á nótunum og einbeittir á myndbandsfundunum og þessari einu æfingu,“ sagði Guðmundur í samtali við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn í Laugardalshöllinni í kvöld.

„Ég var ánægður með hvernig við mættum til leiks og stóðum vörnina. Við tvínónuðum ekkert við hlutina og slógum flest vopn úr höndum þeirra í fyrri hálfleik. Við náðum góðum forskoti þá og fylgdum því eftir seinni hálfleik. Við slökuðum ekkert á.“

Undirbúningurinn fyrir leikinn var afar knappur en íslenska liðið kom ekki allt saman fyrr en í gær og náði aðeins einni æfingu fyrir leikinn.

„Þetta eru erfiðir tímar fyrir íþróttamenn og marga aðra. Við fáum þó að spila og getum verið þakklátir fyrir það. Þetta er hluti af okkar veruleika í dag og við verðum að sætta okkur við það. Mér fannst HSÍ standa frábærlega að þessu verkefni og forráðamenn sambandsins eiga mikið hrós skilið fyrir það,“ sagði Guðmundur.

Íslendingar áttu að mæta Ísraelum í Laugardalshöllinni á laugardaginn en þeim leik var frestað. Guðmundur hefði að sjálfsögðu viljað fá annan leik í þessu landsliðsverkefni.

„Það er svekkjandi, sérstaklega því við vorum búnir að velja ákveðið lið og hluti af þessu var að gefa mönnum tækifæri. Það er sárt að fá ekki þennan leik. Við erum allir komnir hingað og menn lögðu á sig mikið erfiði við það. En svona er þetta og við breytum þessu ekki,“ sagði Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×