Umfjöllun: Ísland - Litháen 36-20 | Leiðin á EM hófst með stórsigri

Ingvi Þór Sæmundsson og Svava Kristín Gretarsdóttir skrifa
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk og gaf fjölda stoðsendinga.
Aron Pálmarsson skoraði þrjú mörk og gaf fjölda stoðsendinga. vísir/vilhelm

Ísland vann stórsigur á Litháen, 36-20, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2022 í tómri Laugardalshöllinni í kvöld. Staðan í hálfleik var 19-10, Íslendingum í vil.

Íslenska liðið leiddi allan tímann og hafði gríðarlega mikla yfirburði. Íslendingar spiluðu virkilega vel í leiknum í kvöld og sýndu Litháum enga miskunn.

Hákon Daði Styrmisson lék sinn fyrsta alvöru landsleik í kvöld og nýtti tækifærið frábærlega. Eyjamaðurinn skoraði átta mörk úr jafn mörgum skotum, þar af sjö í fyrri hálfleik, og markahæstur í íslenska liðinu.

Hákon Daði Styrmisson átti frábæran leik.vísir/vilhelm

Arnór Þór Gunnarsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu fimm mörk hvor, Viggó Kristjánsson skoraði fjögur og Aron Pálmarsson var með þrjú mörk auk þess sem hann dældi út stoðsendingum. Alls komust þrettán Íslendingar á blað í leiknum í kvöld.

Íslenska vörnin var frábær í leiknum og gestirnir áttu engin svör við henni. Ýmir Örn Gíslason var sérstaklega góður í miðri vörn Íslands og virðist hafa bætt sig mikið undanfarna mánuði. Það veit á gott fyrir heimsmeistaramótið í Egyptalandi í byrjun næsta árs.

Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson skiptu hálfleikjunum á milli sín. Björgvin varði fimm skot í fyrri hálfleik (33 prósent) en Viktor tíu skot í þeim seinni (50 prósent).

Þegar Ísland mætti Litháen í umspili fyrir HM 2019 fyrir tveimur árum gerðu Litháar Íslendingum mjög erfitt fyrir. Allt annað var uppi á teningnum í kvöld. Litháíska liðið var arfaslakt og sá aldrei til sólar.

Íslenska vörnin var mjög sterk í leiknum í kvöld.vísir/vilhelm

Ísland náði strax undirtökunum og eftir tólf mínútur var staðan 9-3, íslenska liðinu í vil. Vörnin var gríðarlega sterk, Björgvin Páll fór vel af stað í markinu og sóknin gekk smurt.

Litháar voru óstykir í sókninni og Aidenas Malasinskas, sem fór svo illa með íslenska liðið í umspilsleikjunum fyrir HM 2019, var slakur og tapaði boltanum margoft.

Elvar Örn byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði þrjú af fyrstu sjö mörkum íslenska liðsins. Jákvætt fyrir Selfyssinginn sem átti í vandræðum í sókninni á EM í byrjun þessa árs.

Íslenska liðið gaf örlítið eftir um miðbik fyrri hálfleiks og Litháen minnkaði muninn í fjögur mörk, 13-9. Þá tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé og eftir það náðu Íslendingar áttum á ný, skoruðu fimm mörk í röð og í hálfleik munaði níu mörkum á liðunum, 19-10.

Ísland skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náði ellefu marka forskoti, 21-10. Eftir átta mínútur í seinni hálfleik var munurinn orðinn þrettán mörk, 25-12.

Viggó Kristjánsson skorar eitt fjögurra marka sinna í leiknum.vísir/vilhelm

Sóknarleikurinn datt aðeins niður um eftir góða byrjun á seinni hálfleik. Það breytti þó litlu. Vörnin var enn feykilega öflug og íslenska liðið enn með stórt forskot.

Guðmundur byrjaði að hreyfa íslenska liðið eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og allir sextán leikmennirnir á skýrslu komu við sögu í leiknum.

Á endanum munaði sextán mörkum á liðunum, 36-20. Góður sigur og ekki hægt að biðja um betri byrjun á undankeppninni.

Næstu leikir Íslendinga í undankeppni EM eiga að vera í byrjun janúar, áður en HM í Egyptalandi hefst.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.