Handbolti

Kári „drulluósáttur“ að vera ekki valinn í landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kára Kristjáni Kristjánssyni finnst hann eiga heima í íslenska landsliðinu.
Kára Kristjáni Kristjánssyni finnst hann eiga heima í íslenska landsliðinu. vísir/vilhelm

Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður ÍBV, er svekktur yfir því að hafa ekki verið valinn í íslenska landsliðið sem mætir Litháen í undankeppni EM á morgun og fer ekkert leynt með það.

„Ég er drullupirraður yfir þessu. Ég neita því ekki,“ sagði Kári í samtali við Henry Birgi Gunnarsson í Seinni bylgjunni. 

„Við erum áfram að leggja inn og erum ekkert að tala um einhverjar tölur og eitthvað fjör. Bara fyrstu viðbrögð: drulluósáttur,“ sagði Eyjamaðurinn hreinskilinn að vanda.

Kári var kallaður aftur í landsliðið fyrir EM í Noregi, Svíþjóð og Austurríki í byrjun þessa árs. Hann stóð fyrir sínu á EM og átti m.a. frábæran leik þegar Ísland vann Danmörku, 31-30, í fyrsta leik sínum á mótinu.

Guðmundur Guðmundsson valdi tvo línumenn í íslenska hópinn sem mætir Litháen, Arnar Frey Arnarsson og Ými Örn Gíslason. Þeir leika báðir í þýsku úrvalsdeildinni. Öfugt við Kára spila þeir bæði vörn og sókn og Ágúst Jóhannsson telur að það sé ástæðan fyrir því að þeir voru valdir fram yfir Kára.

„Þeir eru sennilega báðir hugsaðir sem lykilmenn í varnarleiknum. Ýmir er búinn að vera okkar besti varnarmaður og Arnar hefur líka spilað vörnina úti í Þýskalandi, þessa vörn sem landsliðið er að spila og ég hef skilning á því. En það má alveg setja spurningarmerki að Kári hafi ekki verið valinn sem þriðji línumaður,“ sagði Ágúst.

Arnar Freyr leikur undir stjórn Guðmundar hjá Melsungen á meðan Ýmir leikur með stórliði Rhein-Neckar Löwen.

„Ég er búinn að sjá leiki með báðum þessum liðum og hef þá báða spila sókn. Mig grunar, eins og að Gústi er að segja, að þeir spila bæði vörn og sókn og pælingin er væntanlega að fækka skiptingum. Þetta er bara einn leikur núna og svo gæti spilað inn í þessa ákvörðun að það er langt síðan við spiluðum handbolta hérna á Íslandi,“ sagði Einar Andri Einarsson.

Klippa: Seinni bylgjan - Kári og landsliðið

Tengdar fréttir

Orri inn í stað Bjarka

Orri Már Þorkelsson, vinstri hornamaður Hauka, hefur verið kallaður inn í A-landsliðshóp Íslands fyrir leikinn gegn Litháen í komandi viku.

Óðinn Þór kemur inn fyrir Kristján Örn

Landsliðshópur Íslands heldur áfram að taka breytingum en nú er ljóst að Kristján Örn Kristjánsson verður ekki með liðinu á miðvikudaginn. Í hans stað kemur Óðinn Þór Ríkharðsson.

Geri mitt besta og sjáum svo hvað Gummi segir

Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals í Olís deild karla í handbolta, var í dag valinn í A-landsliðið í handbolta er tveir leikmenn þurftu að draga sig úr hópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×