Erlent

Önnur bylgja #MeToo skellur á Danmörku

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frank Jensen hefur sagt af sér sem borgarstjóri Kaupmannahafnar eftir ásakanir um kynferðislega áreitni.
Frank Jensen hefur sagt af sér sem borgarstjóri Kaupmannahafnar eftir ásakanir um kynferðislega áreitni. EPA/Philip Davali

Allt leikur á reiðiskjálfi í dönskum stjórnmálum eftir að Jyllands-Posten greindi frá því á föstudag að Frank Jensen, borgarstjóra Kaupmannahafnar, væri sakaður um kynferðislega áreitni.

Maria Gudme, önnur kvennanna sem ræddi við Jyllands-Posten, sagði Jensen hafa strokið á henni innanvert lærið og farið upp undir kjól hennar árið 2012. Hún er, líkt og Jensen, meðlimur í Jafnaðarmannaflokknum og hafði tekið virkan þátt í starfi flokksins. Gudme situr enn í svæðisráði Jafnaðarmanna á Kaupmannahafnarsvæðinu.

Í viðtali við TV2 sagðist hún hafa tilkynnt málið á sínum tíma en fékk engin viðbrögð í það skiptið. Í september á þessu ári ákvað hún að senda aðra formlega kvörtun og fékk símtal frá Jensen tveimur dögum síðar þar sem hann baðst afsökunar. Henni þótti símtalið óviðeigandi og fannst hann misnota valdastöðu sína með því.

Jensen hafði áður verið sakaður um kynferðislega áreitni eða óviðeigandi hegðun. Árið 2004 sagði Se og hør frá því að kona hafði þurft að fjarlægja hendur Jensen af lærum sínum í þrígang í jólaboði og árið 2011 greindi Ekstra Bladet frá því að Jensen hefði sleikt eyra á einni konu, hálsinn á annarri og hann hafi ítrekað reynt að faðma konur á dansgólfinu gegn þeirra vilja í jólaboði. Jensen baðst afsökunar í janúar 2012 og sagðist ekki hafa ætlað að stíga yfir mörk kvennanna.

Stígur til hliðar

Flokkarnir sem saman stýra Kaupmannahöfn áttu fjögurra klukkustunda langan neyðarfund á sunnudaginn vegna hinna nýju ásakana. Niðurstaðan varð sú að lýsa yfir stuðningi við Jensen og sagðist borgarstjórinn ætla að taka þátt í því að „breyta menningunni“.

Strax morguninn eftir, það er að segja í gær, var komið annað hljóð í strokkinn. Jensen sagði frá því að hann ætlaði að segja af sér sem bæði yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar og sem annar tveggja varaformanna Jafnaðarmannaflokksins.

„Nú þegar ég hef sofið á þessu, og eftir mikinn þrýsting af hálfu fjölmiðla, get ég ekki annað sagt en að þetta myndi skyggja á þá pólitísku vinnu sem ég myndi vilja sinna. Á síðustu vikum, vegna ásakananna gegn mér, hef ég leitast við að verða hluti af lausninni en ekki vandamálinu. Það virðist hins vegar ekki mögulegt eins og stendur,“ sagði Jensen og hélt áfram:

„Þess vegna hef ég ákveðið að segja af mér sem borgarstjóri og gefa þannig flokknum svigrúm til þess að finna annan í starfið fyrir næstu kosningar. Ég hætti í dag bæði sem borgarstjóri og varaformaður Jafnaðarmannaflokksins.“

Hver tekur við?

Jensen hafði verið borgarstjóri í ellefu ár og var búist við því að hann myndi leiða Jafnaðarmenn í sveitastjórnarkosningum á næsta ári. Lars Weiss er nú starfandi borgarstjóri en ekki liggur fyrir hvort hann muni leiða flokkinn í kosningunum.

Danska ríkisútvarpið ræddi við sérfræðinga um framhaldið fyrir Jafnaðarmannaflokkinn og virðist niðurstaðan sú að flokkurinn þurfi nú að sannfæra samstarfsflokkana um að Jafnaðarmenn eigi að halda borgarstjórastólnum. Stuðningsyfirlýsingin við Jensen veiki sömuleiðis meirihlutann.

Christine Cordsen, stjórnmálafréttamaður DR, sagði líklegt að Jafnaðarmenn leiti nú að einhverjum þungavigtarframbjóðanda, helst konu. „Það bendir ýmislegt til þess að Jafnaðarmenn í Kaupmannahöfn leiti nú að konu til að leiða listann, enda væru það sterk skilaboð eftir þetta allt saman.“ 

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á fundi leiðtogaráðs ESB í síðustu viku.EPA/Olivier Hoslet

Tjáir sig ekki um málið

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, svarar því ekki hvort hún hafi vitað af meintum brotum Jensens, sem sagði af sér sem borgarstjóri Kaupmannahafnar og varaformaður Jafnaðarmannaflokksins í gær.

Frederiksen sagði við blaðamenn í morgun að hún sæi ekki ástæðu til þess að fjalla nánar um mál Jensens, þegar hún var spurð hvort hún hafi vitað af ásökununum. Nú sé málið í lagalegu ferli og hún muni ekki tjá sig fyrr en því ferli lýkur.

Utanríkisráðherrann sakaður um nauðgun

Mál Jensens er þó ekki það eina sem skekur dönsk stjórnmál. Jeppe Kofod, utanríkisráðherra og þingmaður Jafnaðarmannaflokksins, hefur verið tilkynntur til lögreglu fyrir nauðgun. Almennir borgarar saka hann um að hafa nauðgað fimmtán ára gamalli stúlku árið 2008.

Kofod hefur játað að hafa átt samræði við stúlkuna og ræddi kynni þeirra í viðtali við TV2 fyrir mánuði. Þar sagðist hann sjá eftir því sem gerðist og að hann hefði axlað ábyrgð á þeim mistökum.

Jeppe Kofod utanríkisráðherra þarf ekki að segja af sér, að mati forsætisráðherra.EPA/Jean-Cristophe Verhaegen

Samræðisaldur í Danmörku er fimmtán ár, en í tilkynningu frá lögreglu staðfestir hún að tilkynningarnar séu sumar hverjar um brot gegn 223. grein dönsku hegningarlaganna, sem oft er kölluð „kennaraákvæðið“, og er þar kveðið á um að samræðisaldur skuli miðast við átján ár þegar meint fórnarlamb á samræði við einstakling sem er í valda- eða ábyrgðarstöðu gagnvart því. Þá er Kofod sömuleiðis sakaður um brot gegn grein 216, er snýst um nauðgun.

Sten Schaumburg-Müller, prófessor í lögfræði, sagðist við TV2 í dag ekki búast við því að málið fari fyrir dóm. „Ég sé ekki fyrir mér hvernig ásakanir almennra borgara, sem tengjast málinu ekki, sem koma fram svona löngu eftir að þetta átti sér stað geti leitt til nokkurs.“ 

Troels Mylenberg, blaðamaður TV2, sagði mál Kofods og Jensens ólík. „Hjá Frank Jensen sérðu mynstur sem nær þrjá áratugi aftur í tímann. Þetta er eina brotið sem Jeppe Kofod er sakaður um. Þetta skiptir máli í augum Mette Frederiksen forsætisráðherra.“

Forsætisráðherra stendur einmitt við bakið á Kofod og sagði í morgun að þetta væri ekki ástæða til afsagnar. Um væri að ræða gömul mistök sem hann hefði þegar beðist afsökunar á. Dönsk menning þyrfti að vera þannig að fólk ætti möguleika á að gera mistök, biðjast afsökunar á þeim og halda áfram störfum. Þá sagðist hún eiga von á því að fleiri ásakanir á hendur meðlima Jafnaðarmannaflokksins komi fram.

Seinni bylgjan

Ritt Bjerregaard, fyrrverandi menntamálaráðherra, þingmaður Jafnaðarmannaflokksins og borgarstjóri Kaupmannahafnar, sagði við DR að nú hefði önnur #MeToo-bylgja skollið á í Danmörku og fyrst núna væri hreyfingin að hafa raunveruleg áhrif.

Ritt Bjerregaard, fyrrverandi borgarstjóri Kaupmannahafnar, segir #MeToo fyrst núna hafa áhrif í Danmörku.EPA/Keld Navntoft

„Ný kynslóð ungra kvenna ætlar ekki að láta þetta viðgangast,“ sagði Bjerregard og bætti við að ákvörðun Jensens um að hætta þátttöku í stjórnmálum væri afar veigamikil.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif fyrir konur, ekki bara á sviði stjórnmála heldur í öllu samfélaginu. Þetta er í fyrsta sinn sem við erum að sjá að svona brot hafa raunverulegar afleiðingar.“

Fyrir þremur árum steig Sonja Marie Jensen, fulltrúi Jafnaðarmannaflokksins í bæjarstjórn Nyborg, fram og sagði frá óviðeigandi ummælum og hegðun samstarfsmanna sinna í ráðhúsinu. Eftirmálarnir urðu litlir sem engir fyrir meinta gerendur heldur var Jensen, samkvæmt DR, sökuð um pólitískan leik.

Hún sagði í dag, líkt og Bjerregaard, að nú eigi sér stað uppgjör ólíkra kynslóða. „Nú eru mörkin önnur en áður og já, við megum krefjast þess að þau séu virt. Það er kominn tími itl að gera sáttmála sem kveður á um að þeim sem þyki viðeigandi að troða höndunum undir kjólinn hjá manni geti bara gert það heima hjá sér.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.