Innlent

„Við getum útrýmt veirustofni“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna. Vísir/Sigurjón

Það er ekkert því til fyrirstöðu að útrýma þeim stofni kórónuveirunnar sem nú er við að etja á Íslandi að mati yfirmanns smitrakningarteymis almannavarna. Það hafi tekist áður að útrýma veirustofni en þær aðgerðir sem gripið hafi verið til séu nauðsynlegar til þess að svo megi verða aftur. Hann segir að grímunotkun geti haft áhrif á það hvort fólk sé sent í sóttkví, en hún ráði þó ekki úrslitum.

Um hundrað manns koma að smitrakningu nú en þegar mest lét í vetur voru um sextíu manns í smitrakningarteyminu. Teymið nýtur nú liðsinnis landamæravarða sem hjálpa til við smitrakningu.

„Smitrakningin gengur mjög vel og starfið hjá okkur. Við höfum þurft að bæta verulega í fjölda sem er að koma að þessu hjá okkur en aðal áherslan hjá okkur er á sóttkví og að meta þörf á sóttkví í kringum tilfelli. Það hefur gengið mjög vel,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.

Aðspurður segir hann að áherslum hafi lítið sem ekkert verið breytt varðandi það hverjir eru sendir í sóttkví. Þröskuldurinn hafi ekki verið lækkaður. „Við erum með nokkuð svipaðar línur og við höfum verið að vinna með frá upphafi,“ segir Jóhann.

Sem stendur hafi tekist að finna tengingar í rúmlega 80% tilfella sem teymið vinnur að því að rekja. „Við búum við það núna að fá raðgreiningarupplýsingar frá Íslenskri erfðagreiningu og sú vinna hjálpar okkur við að sjá hvaða veirutegund við erum að eiga við í hvert skipti. Til dæmis erum við að eiga við aðra veirutegund heldur en við vorum að eiga við í sumar,“ segir Jóhann.

Enn sé nokkuð um það að upp komi hópsmit sem flóknara getur verið að rekja. „Það getur myndast hópur út frá einu smiti, fyrst verða þau kannski fimm og svo tuttugu, og þá sjáum við það í rauninni þegar sóttkvíin nær að grípa þennan fjölda og í rauninni útrýmir veirunni í þá áttina, ef að við sjáum þetta fyrir okkur sem svona grein sem er að vaxa,“ útskýrir Jóhann.

Þras um reglur og reglugerðir

Hann líkt og aðrir sem vinni að smitrakningu segist verða þess var hvernig fjöldatakmarkanir og sóttkví beri árangur. „Út frá einum getur myndast hópur en síðan þegar það næst að girða fyrir það með sóttkví og takmörkuðum samskiptum að þá bara í rauninni endar þetta þar,“ segir Jóhann sem er á þeirri skoðun að aðgerðir sem gripið hafi verið til hafi verið nauðsynlegar.

„Maður verður dálítið var við mikið þras varðandi reglugerðir og reglur og það en ég held að ef fólk áttar sig á markmiðinu og er dálítið samstíga í því þá held ég að það sé hægt að ná býsna miklum árangri í þessu. Við höfum séð það út frá raðgreiningargögnunum, til dæmis eins með þessa „grænu veiru“ sem var í sumar, því að við erum ekki að greina hana lengur, það eru að verða tvær vikur síðan við sáum hana, þannig að það kæmi mér á óvart ef að hún myndi koma upp aftur. Sem segir okkur það að við getum útrýmt veirustofni,“ segir Jóhann.

„Við höfum gert það, við gerðum það í sumar líka. Þá kom upp ein veirutegund sem kom með ferðamanni og varð að svona grein en síðan útrýmdist hún og hún kemur ekkert aftur. Sem segir okkur það að núna erum við að eiga við veirustofn og það er ekkert því til fyrirstöðu að útrýma honum.“

Grímunotkun ráði ekki úrslitum um sóttkví

Hópur nemenda og kennara var sendur í sóttkví eftir að smit kom upp í Réttarholtsskóla en nokkru áður höfðu skólayfirvöld þar mælst til þess að nemendur og starfsfólk bæru grímu í skólanum. Jóhann segir að grímunotkun ráði ekki úrslitum um það hvort fólk sé sent í sóttkví eða ekki en hún geti þó haft áhrif.

„Grímunotkun getur haft áhrif á það. Ef þú ert með grímu þá minnkarðu líkurnar umtalsvert á því að fá veiru, að veikjast. Varðandi sóttkví þá er það í rauninni öryggisúrræði til þess að beita til þess að takmarka útbreiðslu og ég hugsa að það hafi ekki endilega alltaf bein áhrif á sóttkvíarþörfina en það minnkar líkurnar hjá viðkomandi umtalsvert,“ segir Jóhann.

Varðandi skólana hafi verið ráðist í mikla og góða vinnu varðandi skipulag og sóttvarnaráðstafanir, einkum á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi almannavarnanefndar og skólastjórnenda.

„Skólarnir eru margir hverjir, eða flest allir, bara með mjög gott skipulag. En eins og með sóttkví þá er þetta öryggisráðstöfun. Það er í rauninni betra, ef það er hópur sem er útsettur, jafnvel einhverjir með grímur og einhverjir ekki, að þá hugsa ég að sé betra fyrir hópinn að fara í sóttkví og fá þá einhverja niðurstöðu á innan við sjö dögum frekar en að eiga á hættu að smit sé að koma upp aftur og aftur. Þannig náum við í rauninni að útiloka það að það verði einhver frekari útbreiðsla,“ segir Jóhann.

Landamæraverðir til liðs við smitrakningarteymi

Líkt og ítrekað hefur komið fram er aðal áhersla smitrakningarteymisins að rekja smit og meta þörf á sóttkví en í ljósi mikillar útbreiðslu veirunnar nú í þriðju bylgju hefur teymið þurft á liðsauka að halda.

„Við höfum bætt við okkur. Teymið var það um það bil 60 manns í vetur, á tímabili fór það alveg niður í fjóra og nú eru rétt tæplega 100 sem koma að starfinu. Nýverið fengum við til liðs við okkur landamæraverði sem starfa á Keflavíkurflugvelli, þeir eru að aðstoða okkur við að hafa samband við þá sem þurfa að fara í sóttkví, taka þau símtöl. Það er náttúrlega búinn að vera gríðarlegur fjöldi í því,“ segir Jóhann.

Hann segir að vel gangi að ná utan um smitin og að rekja uppruna. „Ég hugsa að þetta sé um rúmlega 80% þar sem við erum með tengingar. Síðan er það líka bara tíminn sem hjálpar okkur við það ef það eru einhverjir sem standa eftir eða þar sem eru óljósar tengingar.“

Telur ekki þörf á strangari aðgerðum

Það var smitrakningu til trafala um tíma að nokkuð var um það að fólk væri tregt við að veita upplýsingar um alla þá sem það hafði verið í samskiptum við. Minna er um slíkt núna að sögn Jóhanns þótt einstaka tilfelli komi upp.

„Heilt yfir er fólk að gefa okkur mjög góðar upplýsingar. Við höfum meira að segja tilfinningu fyrir því að fólk sé mjög samviskusamt en auðvitað eru einstaka tilvik þar sem einhver er að halda eftir einhverjum sem ættu í rauninni að vera að fara í sóttkví. Það náttúrlega veldur því að greinin heldur áfram að vaxa, en þetta eru algjör undantekningartilfelli.“

Spurður hvort hann hefði viljað sjá enn harðari aðgerðir kveðst hann ekki vera á þeirri skoðun. „Þessar aðgerðir eru nú býsna harðar. Þetta snýst eiginlega allt um a við takmörkum þann hóp sem við erum að hitta og hver fyrir sig reyni að minnka líkurnar á að verða útsettur, minnka líkurnar á að útsetja stóran hóp og út frá því þá nær sóttkvíin utan um þetta,“ segir Jóhann sem einnig leggur áherslu á snemmgreiningu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×