Menning

Hið litla sæta og gerspillta Ísland

Jakob Bjarnar skrifar
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur sagt klíkuræðinu á Íslandi stríð á hendur. Hún hefur lengi velt þessu fyrir sér og þegar til kastanna kom var hún ekki lengi að skrifa bók um þetta skaðlega fyrirbæri.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur sagt klíkuræðinu á Íslandi stríð á hendur. Hún hefur lengi velt þessu fyrir sér og þegar til kastanna kom var hún ekki lengi að skrifa bók um þetta skaðlega fyrirbæri. visir/vilhelm

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir rithöfundur sendi nýverið frá sér bókina Spegill fyrir skuggabaldur – atvinnubann og misbeiting valds. Þar skoðar hún það sem lengi hefur verið til umfjöllunar án þess að mikið breytist til batnaðar; spillingu og fyrirgreiðslupólitík á Íslandi. Þetta er sjálf djúpa laugin.

Ólína rekur dæmi um fólk sem hefur mátt kenna á eigin skinni ranglætinu sem óhjákvæmilega fylgir grímulausri misbeitingu ráðningarvalds. Ólína segir af sinni reynslu sem annarra og skoðar frá ýmsum hliðum, fræðilega og sögulega og segir þá af nýlegum dæmum. Samantektin og þá samhengið er sláandi.

Viðbrögðin við bókinni hafa verið mikil og lofsamleg. „Gífurlega sterk og langt út fyrir það sem ég gerði mér vonir um,“ segir Ólína í samtali við Vísi.

Þetta eru engar ýkjur. Ljóst er af athugasemdum sem fallið hafa á samfélagsmiðlum að mörgum er hreinlega brugðið við lesturinn og svo er hitt að bókin er augljóslega rituð í óþökk ýmissa ráðandi afla. Varla allir sem fagna útkomu hennar.

Ætlar ekki að bregðast við haturspóstum

Ólína segist, spurð hvort hún hafi fengið meldingar um að hún hefði betur látið ógert að fjalla um þetta málefni, hafa fengið „örfáar skítapillur og einn haturspóst“. Hún hefur hins vegar engan áhuga á að gefa slíku vægi með því að bregðast við því né ræða sérstaklega.

„Ég er við öllu búin en við skulum ekki dvelja við slíka hluti. Málsmetandi vinir mínir sem ég tek mark á hafa ekki borið við að draga úr mér kjarkinn í sambandi við þetta, þvert á móti hef ég fengið góða hvatningu og stuðning sem ég kann að meta.“

Ólína segist hafa fengið einn haturspóst eftir að bókin kom út en hún ætlar ekki að gefa neinu slíku byr undir báða vængi með því að bregðast við slíku.visir/vilhelm

Í formála ritar Ólína að íslensk stjórnmál og atvinnurekstur hafi „frá upphafi borið keim af spillingu falinna valdaþráða sem hafa ofið sig svo kyrfilega inn í alla kima samfélagsins að almenningur virðist vera orðinn ónæmur“.

Hún leggur út frá samlíkingu við skuggabaldur sem samkvæmt þjóðtrúnni er afkvæmi tófu og kattar. Í samfélaginu, segir hún, hafa náð að læsa saman klónum aðskiljanleg öfl sem samræmast illa í heilbrigðu samfélagi. Þau öfl eru nokkurs konar tófa og köttur: Peningavaldið (atvinnurekendur, fjármagnseigendur, viðskiptajöfrar) og pólitíkin. Útkoman verður samfélagslegur skuggabaldur, afbrigðilegt fyrirbæri sem hætta stafar af fyrir þjóðarheildina.“

Í bókinni er saga fólks sem hefur orðið fyrir „atvinnubanni“ og misbeitingu þess sem Ólína kallar ráðningarvalds. Rakið er hvernig „atvinnurekendavald“ og „klíkustjórnmál“ eru samofin fyrirbæri og hafa læst sig kyrfilega inn í alla kima samfélagsins. Ekki vantar að þessi tengsl hafi verið afhjúpuð í gegnum tíðina. Samt breytist fátt. Hvað veldur því?

„Það er vegna þess að hagsmunirnir eru svo krefjandi,“ segir Ólína. „Þetta er allt spurning um völdin í samfélaginu – undirtökin. Á meðan menn hafa undirtökin vilja þeir ekki sleppa. Þess vegna er hlutverk fjölmiðla svo mikilvægt, og hlutverk fræðasamfélagsins sömuleiðis, að það láti ekki hagsmunaöflin ná tökum á sér. Það verða allir að halda vöku sinni.“

Mikilvægi fjölmiðla og fræðasamfélags

Ólína segir að fjölmiðlar, fræðasamfélag og almenningur verði að spila saman til þess að stemma stigu við spillingunni. Fjölmiðlar með því að vera vakandi og vekja athygli á spillingu þar sem þeir sjá hana og tryggja upplýsta umræðu.

Fræðasamfélagið þurfi að greina og gegnumlýsa samfélagið óttalaust og birta niðurstöður. Að þessum tveimur mikilvægu póstum er hins vegar sótt af hagsmunaaðilum af nokkurri grimmd eins og skilmerkilega er fjallað er um í bókinni og með dæmum.

„Loks má ekki gleyma hlutverki almennings, því hann má aldrei láta undan kröfunni um gagnsæi – heldur verður hann að taka þátt í lýðræðislegri og opinni umræðu. Að almenningi er nefnilega líka sótt með hverskyns áróðri og villandi málflutningi sem hefur skoðanamyndandi áhrif á almenningsálitið.

Sjálf hefur Ólína mátt standa í ströngu við að berjast gegn því sem hún kallar avinnubann og misbeitingu afls. En bókin er ekki málsvörn, hún nálgast umfjöllunarefni sitt úr öllum áttum.visir/vilhelm

Svo verða stjórnvöld einfaldlega að fara að alþjóðlegum viðmiðum og tilmælum siðaðra þjóða og fjölþjóðlegra samtaka á borð við GRECO og reisa lagaskorður við spillingu. Tryggja að stjórnsýslureglur virki sem vernd fyrir borgarana með skýrum verklagsreglum, góðri löggjöf og virku eftirliti. Tryggja að eftirliti sé haldið uppi til dæmis.“

Ólína gerir ekki lítið úr því að það sé verk að vinna en hún er ekki verkkvíðin að upplagi. Til þess má líta að margir blaðamenn hafa mátt upplifa ítrekuð vonbrigði sem í því felst að afhjúpa spillingarmál, augljósa bresti en svo breytist nákvæmlega ekki neitt. Það verður einhver æsingur á samfélagsmiðlum og svo fellur allt í sama farið aftur. Menn bíða rólegir af sér storminn, eins og sagt er.

Jónas Kristjánsson heitinn ritstjóri sagði eitt sinn eftir slíka mæðu; það eina sem Íslendingar hafa á móti spillingu er að komast ekki með puttana í hana sjálfir?

Þurfa aldrei að svara fyrir spilltar gjörðir sínar

„Dropinn holar steininn – en það er rétt að Íslendingar eru mjög meðvirkir og virðast líta svo á að svona sé þetta bara. En viðhorf breytast samt með tímanum. Metoo-hreyfingin breytti miklu. „Black lives matter“ er að breyta ýmsu en þetta er langhlaup,“ segir Ólína við þessari vonleysisræðu blaðamannsins.

En í bókinni fer hún einmitt ítarlega yfir atriði sem eru til þess fallin að viðhalda þessu ástandi. Við ramman reip er að draga. Eitt dæmi sem hún nefnir er að þannig hátti til á Íslandi að stjórnsýslubrot í ráðningarmálum hafa engar afleiðingar fyrir þann sem brotið fremur, öfugt við það sem gerist gagnvart öðrum brotum sem framin eru í samfélaginu. Sjálf hefur hún lent í því að telja freklega fram hjá sér gengið, til að mynda í nýlegu máli sem mjög var til umfjöllunar en Ólína gerir skil í bókinni. Þar hafði hún fullan sigur eftir að hafa kært málið.

„Það eru til dæmis engin viðurlög við því að brjóta á fólki í ráðningarmáli - enginn sem ber raunverulega ábyrgð eða borgar sekt, enginn sem þarf að segja af sér. Kannski er komið að því að setja viðurlög við því þegar jafnréttislög eru brotin til dæmis þannig að stofnun sem gerist sek um slíkt þurfi að greiða sekt í ríkissjóð og eða axla ábyrgð með einhverjum hætti,“ spyr Ólína og er þá að vísa til hins almenna.

„Eins má velta því fyrir sér hvort ekki væri réttast að ógilda hinn ólöglega verknað og dæma fólki starf sem haft hefur verið af því með lagabroti. Mestu varðar þó að gera stjórnsýslureglurnar þannig úr garði að þær fyrirbyggi lögbrot í stað þess að vera leiktjöld til að hylma yfir fyrirgreiðslu og klíkuráðningar svo dæmi sé tekið.“

Smæð samfélagsins vandamál

En skiptir fæðin ekki máli í þessu sambandi? Svo stórt hlutfall fólks hefur beinan hag af því að vera á einhverjum spenum?

„Smæð samfélagsins skapar sérstakar hættur fyrir okkur eins og GRECO hefur bent á og fræðimenn ýmsir. Mín niðurstaða af þessu öllu er pólitísk. Það þarf einfaldlega að skipta um valdaöflin í þessu samfélagi. Koma Sjálfstæðisflokki og Framsókn frá völdum. Þeir flokkar hafa lengst af haldið um stjórnartaumana. Þar hefur ómenningin sem ég lýsi í bókinni þróast hvað lengst og er hvað hatrömmust. Það þarf að skipta um kallana í brúnni,“ segir Ólína. Og heldur áfram:

Ólína með hund sinn. Þó ljóst sé að verk sé að vinna, vilji fólk vinda ofan af gróinni spillingu sem einkennir íslenskt samfélag telur Ólína það gerlegt.visir/vilhelm

„Ein afleiðing smæðarinnar er „innræktunin“ sem ég kalla svo, þar sem skólasystkin hittast á vettvangi þjóðmálanna og ráða ráðum sínum í dómskerfinu, stjórnmálunum, atvinnulífinu og víðar. 

Já, það þyrmir vissulega yfir mann - en ég trúi því að það sé hægt að vinda ofan af þessu. 

Fyrsta og kannski mikilvægasta skrefið í þá átt er að fletta ofan af ástandinu, líkt og þessari bók er ætlað. Hafna leyndarhyggjunni og pukrinu sem eru gróðrastía spillingar og kunningjastjórnsýslu.“

Að kaupa sér fylgi og áhrif með stöðuveitingum

Sem er meira en segja það því fyrirbærin sem Ólína er að skoða og fjalla um hafa skotið djúpum rótum í alla samfélagsgerðina. Við grípum niður í bók Ólínu þar sem greinir frá hugmyndum Gunnars Thoroddsen (1910-1983) en þeim má kynnast nánar í ævisögu Gunnars sem Guðni Th. Jóhannesson forseti skráði og kom út 2010.

Gunnar var meðal annars varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gegndi ýmsum ráðherraembættum, var forsætisráðherra 1980–1983, og áður borgarstjóri í Reykjavík 1947–1959. Gunnar taldi áróður og gott skipulag ungliðahreyfingar flokksins geta skipt sköpum fyrir flokkinn en svo voru skilvirkari aðferðir.

„En Gunnar hafði fleiri notadrjúgar hugmyndir byggðar á pólitískri reynslu og kannski ekki síður á fordæmum sögunnar. „Ný stefnuskrá. Einkum eindregin þjóðernisstefna,“ skrifaði hann hjá sér og vildi taka til athugunar:

… að atvinnurekendur létu sjálfstæðismenn sitja fyrir um vinnu að öðru jöfnu. Þannig myndu menn hafa beinan hag af því að ganga í flokkinn og tileinka sér stefnu hans.

Og Gunnar stóð ekki við orðin tóm. Líkt og svo margir ráðamenn bæði fyrr og síðar tók hann þátt „í vafasamri fyrirgreiðslu innan stjórnkerfisins“ eins og Guðni Th. Jóhannesson orðar það í ævisögunni enda helguðust stjórnmálastörf Gunnars ekki síst af því að greiða götu flokksmanna, frændfólks og vandamanna.“ (bls. 141)

Umbúðalaus afstaða og líklega eru fáir til að mótmæla því að nákvæmlega svona er gangvirkið enn þann dag í dag. Og þó einhverjir kunni að andæfa, þá má hæglega bíða af sér þann gust. Oft eru pólitískar stöðuveitingar svo grímulausar að erfitt er að komast hjá því að taka eftir þeim og má þá ætla þær beinlínis til til þess fallnar að senda skilaboð; það borgar sig að styðja flokkinn og þannig efla flokkshollustuna. Ólína rekur ýmis dæmi um þetta. Til dæmis segir hún frá því á einum stað þegar Jónas frá Hriflu lagði fram þingsályktunartillögu um atvinnubann á kommúnista.

Settist við skriftir í kjölfar máls Þorvaldar Gylfasonar

Ólína hefur líkt og margir aðrir velt þessu grímulausa klíkuræði fyrir sér lengi. En var það eitthvað sérstakt sem varð til þess að hún ákvaða að skrifa bókina?

„Mál Þorvaldar Gylfasonar var kornið sem fyllti mælinn. Þá ákvað ég að setjast við skriftir. Bókin hafði lengi verið að meltast í höfðinu á mér, en ég var ekki lengi að skrifa hana,“ segir Ólína sem vísar til máls sem var í deiglunni í sumar og Vísir fjallaði ítarlega um, eins og reyndar ýmis þeirra mála sem tíunduð eru í bókinni; mál sem kenna má við meinta spillingu. 

En fjármálaráðuneytið og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lögðu lykkju á leið sína og komu í veg fyrir að Þorvaldur fengi ritstjórastöðu við efnahagsritið Nordic Economic Policy Review. Vakti þetta mikla furðu meðal erlendra fræðimanna sem töldu slík afskipti pólitíkusa af ráðningu sem reist er á fræðilegum grunni afar vafasöm svo ekki sé meira sagt. Bjarni mætti fyrir stjórnskipunar og eftirlitsnefnd og taldi þetta eðlilegt, hann sagði fráleitt að samþykkja framgang Þorvaldar á þessum vettvangi meðal annars vegna orða sem hann hefði viðhaft um Sjálfstæðisflokkinn.

„Meðan á skrifum stóð kom svo upp atlaga Samherja að Helga Seljan. Það gaf mér enn frekara eldsneyti.

Nú upp á síðkastið hafa verið að koma upp mál nánast vikulega sem sýna og sanna þörfina fyrir þessa umræðu: Átök atvinnurekenda við verkalýðshreyfinguna, atlaga þeirra að félagafrelsinu, viðleitni til að grafa undan vinnuréttinum, og fleira og fleira sem tína mætti til.“

Í bókinni greinir Ólína frá því hvernig fræðasamfélagið virðist vera undir hæl atvinnulífsins og segir af því hvernig Þorsteinn Már Baldvinsson virðist hafa komið í veg fyrir að hún fengi stöðu við Háskólann á Akureyri. Vísir greindi frá þætti þess máls strax árið 2011. Ólína telur engan vafa á því leika að Þorsteinn Már hafi lagt fæð á hana einkum vegna afstöðu hennar í kvótamálum en hún barðist fyrir breytingu á kvótakerfinu meðan hún sat á Alþingi.

Bardagahumarinn Þorsteinn Már

Ein af aðalpersónum bókarinnar er þannig Þorsteinn Már. Og Ólína reynir að skilja hann með því að líta til dýraríkisins, nánar tiltekið til lífshátta humarsins sem Ólína segir merkilega skepnu. Humarinn býr yfir mikilli samfélagslegri aðlögunarhæfni. Hann endurhannar sjálfsmyndina samkvæmt félagslegu forriti og staða hans ræðst af átökum við aðra humra.

„Bugaður bardagahumar, sem kemst frá slíkum átökum, missir sjálfstraustið – lengi. Ekki nóg með það heldur getur svo farið – sé hann verulega sárt leikinn – að heilinn í honum leysist hreinlega upp.

Þorsteinn Már Baldvinsson er ein af aðalpersónum bókarinnar en þar koma ótal persónur við sögu. Sem tilraun til að skilja Þorstein greip Ólína til þess ráðs að kynna sér hætti humarsins.visir/vilhelm

Í staðinn þróar hann þá nýjan og undirgefnari heila sem hæfir betur stöðu hans og getu. Hormónastarfsemin, sem stafar frá nýja heilanum, er frábrugðin því sem áður var: Hlutfall serótóníns lækkar en októpamínið hækkar. Þetta ræður hegðun hans til framtíðar. Vafalaust geta ýmsir sem upplifað hafa sáran ósigur, ástarsorg eða félagslegan vanmátt samsamað sig líðan þessa dýrs og fundið mikinn mun á sjálfstrausti, jafnvel sjálfsmynd og stöðu.

Í heila sigurvegarans eru aðrir hlutir að gerast. Þar hefur serótónínið hækkað en októpamínið lækkað sem sjá má af hreyfingum hans og líkamsburðum. Serótónínið hefur áhrif á liðleika humarsins og líkamsstöðu – hann getur teygt betur úr sér og gert sig stærri og hættulegri ásýndar en áður. Hann verður sperrtur og stæðilegur skelfiskur sem ber sig vel og er ógn í augum annarra humra.“ (Bls. 20 til 21)

Hvort þetta má heita lýsandi fyrir sjálfsmynd Þorsteins Más, hinn sigurglaði skelfiskur, er spurning en engu að síður, sé miðað við lýsingar Ólínu á yfirgangi Þorsteins Más og það sem hann kemst upp með, verður þá ekki að draga þá ályktun að Íslendingar séu fremur þrælslundaðir?

„Ég vil ekki draga slíka ályktun. Þetta skrifast frekar á andvaraleysi eða nokkurs konar „sakleysi“ heldur en þrælslund. Svo er hver og einn sjálfum sér næstur. Þegar fólk skynjar að lífsviðurværinu er ógnað – atvinnuöryggið er í hættu – þá er ekki hægt að ætlast til mikillar hetjulundar. Þetta vita þeir sem beita afkomuofbeldi og þeir nýta sér það,“ segir Ólína og hugsar sig um.

„Auk þess er erfitt fyrir almenning að sjá samhengið.“

Rógur er notadrjúgt fyrirbæri

Spillingin ristir afar djúpt og hefur líklega verið samofin samfélagsgerðinni frá öndverðu. Rógur er eitt þeirra verkfæra sem lengi hefur verið notað til að útiloka fólk og halda þeim utangarðs sem ekki tilheyra hópi hinna útvöldu og/eða teljast ekki líklegir til að spila með. Ólína leitar víða fanga. Erfitt getur reynst að festa hendur á róginum en um hann er fjallað í Jónsbók frá 1281.

„Þar segir að sá sem rægir mann við konung eða jarl skuli sjálfur dæmdur fyrir þær sakir sem hann hefur borið á viðkomandi. Í tilviki Jónsbókar er hugtakið „rógur“ jafngildi tilræðis við æru manna – en á þeim tímum var ekki svo mikill greinarmunur gerður á æru manns og lífi hans. Til dæmis er kveðið á um það í gömlum lögum að í „lífs- og ærusökum“ skuli menn ekki dæmdir án tilhlutunar æðsta dómsvalds.1 Hver sá sem viðhefur róg eða hlustar á róg hefur vikið frá réttlátum leikreglum. Þeir sem „hvísla“ ærumeiðingar sínar í skjóli nafnleyndar að einhverjum æðra settum til þess að koma höggi á einstakling, hafa gerst sekir um tilraun til launvígs. Sá sem hlustar á róg, lætur hann viðgangast, jafnvel hafa áhrif á gerðir sínar er samsekur. Viðkomandi hefur þar með brotið á þeim sem um er rætt – hefur brotið rétt viðkomandi til sjálfsvarnar. Þetta jafngilti ódæði á þrettándu öld.

Íslensk stjórnsýslulög kveða á um málsmeðferð hins opinbera gagnvart þeim sem þurfa að sækja mál sitt til stjórnvalda. Þau kveða á um andmælarétt, rannsóknarskyldu stjórnvalda og jafnræðisreglu. En í hinum almennu leikreglum sem gilda í reynd – til dæmis í almennum hegningarlögum – hafa rógberarnir frið til athafna. Yfir þeim vofir engin refsing eða krafa um að bera ábyrgð orða sinna, því að í íslenskum lögum er ekkert ákvæði um rógsmenn. Ærumeiðingarlöggjöfin nær einungis til opinberra ummæla og því er rógburður í reynd löglegt athæfi. Löglegt en siðlaust, eins og eitt sinn var sagt af öðru tilefni. Fjölmörg dæmi mætti tilgreina um það þegar uppljóstrarar eða fólk, sem er stjórnvöldum þungur ljár í þúfu, er atað auri til þess að lágmarka skaðann af orðum þess og gjörðum.“ (Bls. 157-158)

Erfitt fólk en fyrir hvern?

Ólína nálgast þetta fyrirbæri, andverðleika-, klíku- og spillingarfyrirkomulag úr öllum áttum. 

Eitt sem þú talar um er hlutverk rógs. En þá má á móti spyrja: Er ekki möguleiki á að þetta fólk sem hefur fengið að kenna á þessu sé „erfitt“ fólk?

„Erfitt fyrir hvern?“

Tjahh, erfitt í samstarfi almennt?

„Ég hef séð allt of mörg dæmi um atvinnuútilokun fólks til þess að geta tekið undir það. Auðvitað kunna að finnast slík dæmi en lykilatriðið hér að erfiðleikarnir felast í afstöðu valdhafanna til fólks vegna afstöðu þess og ótta við að það verði ekki nógu hlýðið,“ segir Ólína en hún telur þetta ávísun á andverðleikasamfélag. Það sé engin klisja.

Samþætting stjórnmála og atvinnulífs er baneitraður kokteill. Afleiðingarnar eru spillt samfélag þar sem menn beita valdi sínu grímulaust til að hygla sér og sínum. Sem hlýtur að vera ávísun á andverðleikasamfélag.visir/vilhelm

„Ráðningarvaldið er oft ekki að leita að hæfni, færni eða þekkingu heldur auðsveipni við ákveðna hagsmuni. En hæfni, geta, þekking og reynsla eiga auðvitað að ráða því hvernig fólki er raðað til starfa – til dæmis innan fræðasamfélagsins. Ef fólk er óhæft í samstarfi vegna veikinda, andlegra eða líkamlegra, þá á það að koma fram með opinskáum hætti í ráðningarferlinu til dæmis, og í heilbrigði ráðningarferli er það þannig. Og þetta er ekki alhæfing, sjáðu ég dreg fram dæmi og vitna í rannsóknir.“

Rógurinn og orðsporshættan

Víst er að þetta er ekki einfalt viðureignar. Þannig er innbyggt í þetta einskonar Catch 22; fólk sem er órétti beitt bregst auðvitað við því, reitt eða sárt eftir atvikum, og þá er hægt að benda á það og segja: Þarna sjáið þið. Þessi maður er nú ekki alveg í lagi.

Það er flókið og erfitt að verjast þessu?

„Einmitt – þú sérð til dæmis hvernig farið var að við Andra Snæ í Þingvallanefnd, þar sem beinlínis var bókað í opinberri fundargerð að maðurinn væri „umdeildur“. 

Þetta er auðvitað ekki í lagi. Þetta er ekkert annað en þöggun og útskúfun,“ 

segir Ólína. Í bókinni er rifjað upp, og vitnað í bók Jóhanns Haukssonar, Þræði valdsins (2011), þegar tekist var á um það tillögu um að Andri Snær Magnason rithöfundar væri fulltrúi í nefnd sem hafði þann tilgang að vinna úr hugmyndum um uppbyggingu þjóðgarðsins.

Mörgum er brugðið við lesturinn og víst er að ekki fagna allir útgáfu þessarar bókar.

„Andri Snær er landsþekktur baráttumaður fyrir náttúruvernd og hefur ritað bækur sem vakið hafa fólk til vitundar um afleiðingar stórtækra virkjanaáforma á hálendi Íslands. Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð, sem kom út 2006, stakk marga ráðamenn illa, enda einstaklega afhjúpandi og vekjandi ritsmíð sem vakti mikla athygli. Sérstaklega kom sú bók illa við þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Töldu þessir tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins Andra Snæ vera of „umdeildan“ til þess að sitja í nefnd sem víðtæk sátt þyrfti að vera um,“ segir í bókinni.

Ólína leitaði víða fanga og nálgast viðfangsefni sitt úr ýmsum áttum. Þá hefur hún ekki tölu á því hversu marga hún ræddi við vegna skrifanna.

„Ég ræddi við æði marga, mun fleiri en sögurnar gefa til kynna. En fólk veigrar sér við að koma fram undir nafni – það er ein hliðin á þessari þöggun. Eins og þú getur lesið á einum stað veigrar fólk sér líka við að leita réttar síns, vegna orðsporsáhættunnar sem ég hef nefnt. Það er auðvitað ekki heilbrigt ástand en svona er það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×