Körfubolti

Ferðin í Hrútafjörð ekki á vegum Stjörnunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Stjörnustelpur fóru í æfingaferð á Reyki í Hrútafirði.
Stjörnustelpur fóru í æfingaferð á Reyki í Hrútafirði. Stjarnan/skolabudir.is

Stjarnan hefur sent frá sér tilkynningu til að árétta að æfingaferð körfuboltaliðs félagsins í Hrútafjörð hafi ekki verið skipulögð af félaginu.

Í yfirlýsingunni segir að aðalstjórn Stjörnunnar og körfuknattleiksdeild muni fara yfir málið innanhúss og ekki tjá sig frekar um það í fjölmiðlum.

Eins og Vísir greindi frá í dag fór meistaraflokkur kvenna í körfubolta hjá Stjörnunni í æfingaferð á Reyki í Hrútafirði síðasta föstudag. Það gerði hópurinn þvert á tilmæli sóttvarnayfirvalda þess efnis að íbúar höfuðborgarsvæðisins haldi sig heima nema brýna nauðsyn beri til. Með þessu hugðist hópurinn meðal annars geta æft körfubolta á meðan að það væri bannað á höfuðborgarsvæðinu.

Birgir Kaldal Kristmannsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá körfuboltadeild Stjörnunnar, sagði Margréti Sturlaugsdóttur þjálfara hafa átt hugmyndina og að leikmenn og foreldrar þeirra hefðu tekið afar vel í hana. Hópurinn væri lokaður af á Reykjum og ætti ekki í samskiptum við fólk utan hans.

Ása Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Stjörnunnar, sendi Vísi eftirfarandi fréttatilkynningu frá félaginu:

„Vegna fréttaflutnings í dag af ferð hluta meistaraflokks kvenna hjá Stjörnunni í skólabúðir með æfingaívafi á Reyki í Hrútafirði vill Stjarnan árétta það sem þegar hefur komið fram í fjölmiðlum að umrædd ferð er ekki á vegum Stjörnunnar og hvorki skipulögð né kostuð af félaginu á nokkurn hátt. Stjarnan hefur lagt ríka áherslu á að fylgja tilmælum yfirvalda og í ljósi þess munu aðalstjórn félagsins og körfuknattleiksdeild fara yfir málið innanhúss en að öðru leyti ekki tjá sig frekar í fjölmiðlum.“


Tengdar fréttir

Skelltu sér í æfingabúðir út á land þrátt fyrir tilmælin

Leikmenn meistaraflokks kvenna í körfubolta hjá Stjörnunni í Garðabæ lögðu land undir fót á föstudaginn. Leiðin lá á Reyki í Hrútafirði þar sem Margrét Sturlaugsdóttir þjálfari hafði skipulagt skólabúðir með æfingaívafi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.