Innlent

„Við höfum áfram talsverðar áhyggjur af þessu“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, segir það áhyggjuefni að fjöldi þeirra sem greinist með kórónuveiruna daglega hér á landi sé jafn hár og raun ber vitni. Sóttvarnayfirvöld hafi verið með væntingar um að smitum yrði nú tekið að fækka eftir að þeim tók að fjölga nokkuð hratt síðustu daga.

„Við höfum áfram talsverðar áhyggjur af þessu. Við vorum með ákveðnar væntingar um það að þessar tölu færu að lækka, þannig að við höfum áhyggjur af stöðunni eins og hún er. Eins og ég segi höfðum vonast til að þær aðgerðir sem almenningur greip til, að okkar hvatningu, með aukinni fjarvinnu og minni samkomum myndum við sjá tölurnar lækka,“ segir Víðir í samtali við fréttastofu.

Væntingarnar hafi hins vegar ekki gengið eftir og því sé óvissa í kortunum. Á morgun, sunnudag, verði staðan metin og næstu skref skoðuð.

„Við ætlum meta stöðuna á morgun og sjá hvernig tölur morgundagsins verða. Þá ætlum við að hittast og fara yfir þetta.“

Landshlutadreifingin annað áhyggjuefni

Eins segir Víðir það vera áhyggjuefni að smit séu nú tekin að greinast víða um land, þó langflest hafi tilfellin verið á höfuðborgarsvæðinu. Í gær hafi til að mynda greinst smit á Suðurnesjum, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Í dag greindust 38 manns með kórónuveiruna innanlands, þar af voru 20 í sóttkví. Alls hafa 379 manns greinst með veiruna síðustu 10 sólarhringa, en heildarfjöldi þeirra sem greinst hafa með veiruna innanlands er 2.601. Af þeim sem greinst hafa með COVID-19 á Íslandi eru tíu látin.

Hér að neðan má sjá tölfræði af vef Almannavarna og Landlæknis, covid.is, sem snýr að faraldrinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.