Körfubolti

Körfuboltakvöld: KR er bara að plata okkur

Sindri Sverrisson skrifar

„Ég er hættur að hlusta á þessa meiðslasögu hjá KR. Ég held að þetta sé lygi,“ sagði Teitur Örlygsson í léttum tón þegar sérfræðingarnir í Domino's Körfuboltakvöldi ræddu um lið KR eftir sigurinn á toppliði Stjörnunnar í gær. Innslagið má sjá hér að ofan.

KR virðist eins og svo oft áður búið að finna rétta gírinn nú þegar úrslitakeppnin hefst brátt og menn eins og Matthías Orri Sigurðarson og Kristófer Acox voru frábærir í gær.

„Mér finnst Kristófer koma betur og betur inn í þetta. Hann er búinn að vera að díla við alls konar kvilla en virðist vera að ná sér að fullu og þá eru það ótrúlega skemmtilegir hlutir fyrir KR. Krafturinn í þessum strák er óborganlegur, hann er frábær íþróttamaður og ef hann er orðinn heill heilsu þá er það ekki góðs viti fyrir neinn nema KR,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, en það var þá sem Teitur velti því upp sposkur á svip hvort að nokkuð væri að marka meiðslafréttir af KR-ingum:

„Ég held að Böddi [Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR] hói þeim öllum inn og segi bara „strákar, nú bullum við í liðinu, þykjumst vera meiddir. Slappið af. Jón Arnór þú ferð bara til Flórída...“ Þeir eru bara að plata okkur einhvern veginn,“ sagði Teitur léttur en Jón Arnór Stefánsson var mættur aftur í slaginn í gær eftir ferð til Bandaríkjanna.

Eins og fyrr segir virðist Matthías Orri Sigurðarson kominn vel í gang, rétt eins og í fyrra með ÍR. Kjartan Atli Kjartansson benti á hve dýrmætir hans eiginleikar væru fyrir KR og Teitur tók undir það:

„Það voru þarna 2-3 sett á síðustu tveimur mínútunum þar sem að KR fékk bara hrein sniðskot. Það er ofboðslega gott merki fyrir liðið og ein af ástæðunum fyrir því að þeir eru alltaf að vinna,“ sagði Teitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×