Innlent

Ó­vissu­stig á Kefla­víkur­flug­velli í morgun vegna einka­flug­vélar

Eiður Þór Árnason skrifar
Engin hætta var á ferðum en grunur var um rafbilun um borð.
Engin hætta var á ferðum en grunur var um rafbilun um borð. Vísir/vilhelm

Flugturn á Keflavíkurflugvelli tilkynnti í morgun um grænt óvissustig þegar flugvél með bilun í rafkerfi kom inn til lendingar. Hún lenti svo heilu og höldnu, er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Um var að ræða einkaflugvél með fjóra farþega um borð sem var á leið frá Bandaríkjunum, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

Þegar vélin hóf að lækka flugið til lendingar á Keflavíkurflugvelli komu vísbendingar um mögulega rafmagnsbilun og var sérstakur viðbúnaður á flugvellinum vegna þessa. Engin vandræði voru í lendingu og var því engin hætta á ferðum.

Tegund óvissustigs á vellinum tekur mið af fjölda farþega um borð og var um að ræða lægstu boðun.

Einnig þurfti að lenda annarri vél á Keflavíkurflugvelli í nótt vegna veikinda farþega um borð. Vélin var á leið frá Havana til Moskvu og var viðkomandi farþegi fluttur með sjúkrabíl á Landspítala í Fossvogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×