Enski boltinn

Er Gylfi Þór að renna út á tíma hjá Everton?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gylfi Þór kom að báðum mörkum Everton gegn Arsenal um síðustu helgi.
Gylfi Þór kom að báðum mörkum Everton gegn Arsenal um síðustu helgi. Vísir/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson, dýrasti leikmaður enska knattspyrnufélagsins Everton frá upphafi og einn besti leikmaður Íslands allra tíma virðist ekki eiga sjö dagana sæla hjá enska félaginu þessa dagana.

Greg O‘Keefe hjá The Athletic veltir því fyrir sér hvort tími Gylfa Þórs hjá félaginu sé í þann mund að ljúka.

Everton keypti Gylfa frá Swansea City á 45 milljónir punda í ágúst 2017 eftir að níu mörk hans ásamt 13 stoðsendingum björguðu síðarnefnda liðinu frá falli. Á þeim tíma voru mörg lið á eftir Gylfa en það er annað upp á teningnum í dag. O´Keefe telur að frammistöður Gylfa undanfarið séu ekki að sannfæra Carlo Ancelotti, nýjan stjóra Everton, um að halda honum hjá félaginu eftir EM 2020. 

„Eftir vonbrigða frammistöðu í 3-2 tapinu á útivelli gegn Arsenal er erfitt að sjá hvar Gylfi passar inn á miðju Everton liðsins á næstu leiktíð,“ sagir O´Keefe í grein sinni. Hann reiknar greinilega með því að Ancelotti fái að móta liðið en eflaust mun Marcel Brands, yfirmaður knattspyrnumála, hafa eitthvað um það að segja þar sem Everton skiptir um stjóra oftar en eðlilegt þykir.

Ancelotti tók við af Marco Silva þann 21. desember og er sjötti knattspyrnustjóri Everton frá því að Gylfi var keyptur. Hollendingurinn Ronald Koeman var við stjórnvölin fyrst. Eftir að hann var rekinn tók gamli varnarjaxlinn David Unsworth við liðinu í átta leiki áður en Sam Allardyce var ráðinn út það tímabil.

Vorið 2018 var Silva svo ráðinn og svo látinn fara eftir 5-2 tap gegn Liverpool í desember síðastliðnum. Áður en Ancelotti tók við stjórnartaumunum var Duncan Ferguson titlaður stjóri félagsins en hann er Ancelotti innan handar í dag.

Sá ítalski hefur spilað hefðbundið 4-4-2 síðan hann tók við Everton og hefur Gylfi aðallega leikið í stöðu miðjumanns þar sem hann fær ekki það frjálsræði sem hann fékk undir stjórn Marco Silva þegar hann lék í „tíunni“ á bakvið framherja liðsins. Árangur Íslands með Gylfa á miðri miðjunni ætti þó að sýna fram á að hann er vel fær um að leika á miðri miðjunni í 4-4-2 leikkerfi.

Gylfa var hins vegar stillt upp á vinstri vængnum gegn Arsenal og þó hann hafi komið að báðum mörkum Everton í leiknum virðist sem frammistaða hans hafi ekki verið nægilega góð.

O´Keefe leitaði til Hjörvars Hafliðasonar, sérfræðings Stöð 2 Sport um enska boltann, og líkt og flestir Íslendingar þá skilur Hjörvar ekki alveg gagnrýnina á Gylfa á meðan aðrir leikmenn liðsins virðast sleppa.

MLS deildin í Bandaríkjunum hefur verið nefnd sem síðasti áfangastaður Gylfa áður en hann leggur skóna á hilluna en þessi þrítugi miðjumaður íslenska landsliðsins er eflaust ekki farinn að huga að því. Hann á tvö ár eftir af samningi sínum og er talið að hann hafi lítinn áhuga á því að yfirgefa Bítlaborgina næsta sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×