Enski boltinn

Gylfi fékk sex hjá staðar­blaðinu: Átti þátt í báðum mörkunum en leit þreyttur út í síðari hálf­leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi í leiknum í gær.
Gylfi í leiknum í gær. vísir/getty

Gylfi Þór Sigurðsson fékk sex í einkunn frá staðarblaðinu í Liverpool, Liverpool Echo, eftir 3-2 tap Everton gegn Arsenal á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Gylfi byrjaði leikinn af miklum krafti en mikið fjör var í leiknum í fyrri hálfleik. Everton náði forystunni eftir innan við mínúta en Arsenal náði að snúa leiknum sér í hag áður en Everton jafnaði fyrir hlé.

Hafnfirðingurinn átti þátt í báðum mörkum Everton í leiknum. Fyrsta markið kom eftir glæsilega aukaspyrnu Gylfa og í öðru markinu fylgdi Richarlison eftir skoti hans eftir darraðadans í teignum.

„Tók frábæra aukaspyrnu sem leiddi til fyrsta marksins og átti mikilvægan þátt í öðru markinu einnig. Eftir öflugan fyrri hálfeik dró af íslenska landsliðsmanninum í síðari hálfleik sem leit þreyttur út en það tekur ekki í burtu hversu öflugur hann var fyrstu 45 mínúturnar,“ segir í umsögninni um Gylfa.







Hann er einn sjö leikmanna Everton sem fá sex í einkunn. Varamaðurinn Andre Gomes var hæstur með átta Dominic Calvert-Lewin og Richarlison komu næstir með sjö í einkunn. Lægstur var Djibril Sidibe með fjóra í einkunn en hann átti skelfilegan leik í hægri bakverðinum.

Everton er í 11. sætinu eftir leiki helgarinnar en liðið mætir Manchester United um næstu helgi á Goodison Park. Fimm stigum munar á liðunum en United er í 5. sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×