Enski boltinn

Gylfi og félagar nú aðeins fimm stigum frá Meistaradeildarsæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga enn möguleika á að ná Meistaradeildarsæti. Hér fagna þeir marki Bernard á móti Crystal Palace.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar eiga enn möguleika á að ná Meistaradeildarsæti. Hér fagna þeir marki Bernard á móti Crystal Palace. Getty/Alex Livesey

Manchester United hjálpaði ekki bara sér með sigrinum á Chelsea á Brúnni í gærkvöldi heldur er baráttan um síðustu sætin í Meistaradeildinni varð enn harðari eftir þessi úrslit.

Manchester United hélt sér á lífi í baráttunni um Meistaradeildarsæti og létti á pressunni á knattspyrnustjóranum Ole Gunnar Solskjær með 2-0 útisigri á Chelsea í gærkvöldi en þetta var lokaleikur vetrarfrís umferfðarinnar sem tók tvær vikur.

Manchester United er aðeins þremur stigum á eftir Chelsea eftir þennan sigur en Chelsea menn sitja eins og er í fjórða og síðasta sætinu sem á að gefa þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta ári.

Fimmta sætið gæti hins vegar gefið Meistaradeildarsæti líka fari svo að Meistaradeildarbann Manchester City standi. Tottenham er nú komið upp fyrir nýliða Sheffield United og sitja í fimmta sætinu, aðeins stigi á eftir Chelsea.



Fyrir neðan Manchester United (7. sæti) eru síðan lið Wolves og Everton sem eru jöfn með 36 stig. Everton er reyndar með sjö mörkum slakari markatölu en Úlfarnir og situr því í níunda sætinu.

Everton liðið hefur unnið tvo leiki í röð, er taplaust í síðustu fimm leikjum og hefur alls unnið fimm af níu leikjum síðan að Carlo Ancelotti tók við liðinu.

Everton hefur náð í sautján stig í níu leikjum undir stjórn Ítalans, 1,9 í leik, en fékk bara nítján stig í fyrstu sautján deildarleikjum tímabilsins eða 1,1 að meðaltali í leik.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Everton eru nú aðeins fimm stigum frá Meistaradeildarsæti en það reynir á liðið í næstu leikjum. Næstu fjórir leikir Everton eru á móti Arsenal (úti), Manchester United (heima), Chelsea (úti) og Liverpool (heima).

Haldi gott gengi Everton áfram í þessum fjórum leikjum yrði ljóst að Carlo Ancelotti væri búinn að koma liðinu fyrir alvöru inn í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×