Innlent

RÚV leið­réttir frétt í kjöl­far gagn­rýni Sam­herja

Eiður Þór Árnason skrifar
Fréttastofa RÚV hefur beðist velvirðingar á staðhæfingunni.
Fréttastofa RÚV hefur beðist velvirðingar á staðhæfingunni. Vísir/vilhelm

Fréttastofa RÚV telur rétt að leiðrétta fullyrðingu um Samherja sem birtist í frétt um þróunaraðstoð og spillingu síðasta fimmtudag.

Forsvarsmenn Samherja kröfðust þess fyrr í dag að RÚV myndi biðjast afsökunar og leiðrétta „meiðandi frétt“ sem sýnd var í tíufréttum RÚV síðasta fimmtudagskvöld.

Í fréttinni sem um ræðir var sagt að Samherji hefði aflað sér kvóta með því að múta embættismönnum í Namibíu. Fréttastofa RÚV hefur nú dregið þá fullyrðingu til baka og segir að hið rétta sé að Samherji hafi verið borinn þeim sökum. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

Sjá einnig: Samherji krefst þess að RÚV biðjist afsökunar á „meiðandi frétt“

„Fréttastofan biðst velvirðingar á þeirri staðhæfingu sem fram kom í fréttinni á fimmtudag en ítrekar að allt sem kom fram í þætti Kveiks um Samherjamálið 12.nóvember 2019 og í öðrum fréttum um málið, stendur.“ 

Í leiðréttingunni frá fréttastofu RÚV er vísað til fyrri umfjöllunar Kveiks þar sem greint var frá því Samherji hafi greitt namibískum embættismönnum háar fjárhæðir í greiðslur.

„Þær voru að sögn fyrrverandi starfsmanns Samherja mútur. Sérfræðingur í spillingarmálum sem rætt var við í þættinum sagði sömuleiðis að greiðslurnar bæru með sér að vera mútur.“

Jafnframt er þar tekið fram að málið sé enn í rannsókn og að starfsmenn Samherja hafi ekki verið sakfelldir eða ákærðir fyrir slík brot.

Nokkrir namibískir embættismenn hafi hins vegar „verið ákærðir fyrir að þiggja mútur í tengslum við kvótaúthlutanir sem tengjast Samherja,“ segir í leiðréttingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×