Handbolti

Valsmenn fara til Noregs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Aron Hostert og félagar í Val fara til Noregs í næstu umferð Áskorendabikars Evrópu.
Róbert Aron Hostert og félagar í Val fara til Noregs í næstu umferð Áskorendabikars Evrópu. vísir/vilhelm

Valur mætir Halden frá Noregi í 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu í handbolta. Dregið var í 8-liða úrslitin í dag.

Valur er búinn að slá Bregenz frá Austurríki og Beykoz frá Tyrklandi úr leik, þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað á heimavelli í Áskorendabikarnum á þessu tímabili.

Fyrri leikur Vals og Halden fer fram 21. eða 22. mars og sá síðari 28. eða 29. mars.

Halden hefur slegið Kauno Azuolas-TPU frá Litháen og Neva frá Rússlandi úr leik.

Valsmenn komust í undanúrslit Áskorendabikarsins fyrir þremur árum. Þar töpuðu þeir á umdeildan hátt fyrir Potaissa Turda frá Rúmeníu.

Potaissa Turda var í pottinum þegar dregið var í 8-liða úrslit í dag. Rúmenarnir mæta AEK Aþenu frá Grikklandi. Sigurvegarinn úr þeirri rimmu mætir sigurvegaranum úr einvígi Vals og Halden í undanúrslitum Áskorendabikarsins.


Halden endaði í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og komst ekki í úrslitakeppnina. Liðið komst hins vegar í bikarúrslit þar sem það tapaði fyrir Elverum, 30-22.

Eftir 17 umferðir á þessu tímabili er Halden í 8. sæti norsku deildarinnar.

Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Vals, lék með Halden tímabilið 2016-17.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.