Handbolti

Valsmenn höndluðu mikla spennu í Tyrklandi

Sindri Sverrisson skrifar
Agnar Smári Jónsson skoraði sex mörk í dag.
Agnar Smári Jónsson skoraði sex mörk í dag. vísir/Vilhelm

Valsmenn eru komnir áfram í 8-liða úrslit Áskorendakeppni karla í handbolta eftir að hafa slegið Beykoz út í Tyrklandi með tveimur eins marks sigrum.

Valur var með naumt forskot eftir 26-25 sigur í gær, en báðir leikirnir fóru fram ytra. Í dag voru Tyrkirnir með frumkvæðið um tíma í seinni hálfleiknum, og komust í 28-26 þegar um tíu mínútur voru eftir. Eftir tvö mörk í röð frá Agnari Smára Jónssyni náði Valur að komast yfir að nýju en spennan var mikil á lokamínútunum. Beykoz jafnaði metin í 30-30 þegar enn var rúm hálf mínúta eftir en Ásgeir Snær Vignisson tryggði Val svo sigur eftir að Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari hafði tekið leikhlé.

Ásgeir og Agnar Smári voru markahæstir með 6 mörk hvor í dag. Magnús Óli Magnússon skoraði 5, Róbert Aron Hostert 4, Vignir Stefánsson og Þorgils Jón Svölu Baldursson 3 mörk hvor, og Stiven Tobar Valencia 1.

Áætlað er að 8-liða úrslitin fari fram 21.-22. mars og 28.-29. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×