Innlent

Vilja fara ó­líkar leiðir til þess að bæta kjör fé­lags­manna Eflingar

Eiður Þór Árnason skrifar

Staðan í kjaraviðræðum Reykjavíkurborgar og Eflingar var til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag en ótímabundið verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg hófst í dag.

Sumir borgarfulltrúar minnihlutans tóku mjög virkan þátt í þeirri umræðu en athygli vakti að enginn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins tók þar til máls.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sagði stöðuna vera grafalvarlega í samtali við fréttastofu.

„Við Sósíalistar óskum eftir umræðu um hvernig láglaunastefnan hefur áhrif á starfsmenn borgarinnar. Þetta er gríðarlega slítandi að þurfa hér mánuð eftir mánuð að þurfa að vera settur í þá stöðu að þurfa að komast af á lægstu launum sem duga engan veginn til þess að greiða reikninga, greiða leigu, framfleyta sér og sinni fjölskyldu.“

„Þetta er gjörsamlega óboðlegt og það er okkar að mæta láglaunafólki, hlusta á kröfur Eflingar, hlusta á raddir þessara einstaklinga sem eru núna að stíga fram, leggja niður störf og segja bara „Við getum þetta ekki lengur.“ Það er það sem ég var að kalla eftir á borgarstjórnarfundi núna. Að við myndum eiga virkt samtal um þetta og ég fékk ekki mörg svör,“ bætti Sanna við.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir flokkinn frekar leggja áherslu á að lækka álögur á borgarbúa.

„Við komum með þá ábendingu að borgin getur gert margt til að auka kaupmátt. Borgin tekur mjög mikið af laununum í skatt, tekur útsvar sem er hærra heldur í nágrannasveitarfélögunum og borgin getur gert miklu meira af því að vera með hagstætt húsnæði, það er að segja byggja á hagstæðum reitum og þetta höfum við lagt til ítrekað.“

„Við höfum líka bent á það að borgin getur stytt vinnuvikuna með því að vera ekki með svona miklar tafir í umferð. Þetta allt saman, lækka launaskatta, greiða fyrir umferð og vera í raun og veru ekki að taka svona mikið af fólkinu, það er okkar framlag. Borgin á að leggja minni byrgðar á fólkið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×