Innlent

Stefnt að því að niður­greiðsla innan­lands­flugs hefjist í haust

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins.
Gert er ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins. vísir/vilhelm

Stjórnvöld stefna að því að hefja niðurgreiðslu á innanlandsflugi þann 1. september næstkomandi.

Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins þar sem kemur fram að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafi falið verkefnahópi að útfæra framkvæmdina varðandi greiðsluþátttöku ríkisins í farmiðakaupum íbúa á landsbyggðinni.

Er fyrirhuguð niðurgreiðsla í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en fyrirmyndin er meðal annars sótt í framkvæmd skoskra stjórnvalda á þessu sviði.

Í hópnum sitja fulltrúar Vegagerðarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja flugfélaga í innanlandsflugi.

„Í verkefnisáætlun hópsins segir að greiðsluþátttaka skuli taka til allra íbúa sem eiga lögheimili á svæðum í a.m.k. 270 km fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og/eða svæða þar sem aðrar sérstakar aðstæður kalla á slíka þátttöku svo sem eyja án vegasambands.

Greiðsluþátttaka mun takmarkast við ferðir sem farnar eru í einkaerindum og á eigin kostnað umsækjanda. Miðað skal við tiltekinn fjölda ferða á mann á ári og hámarkskostnað á ferð. Í leiðbeiningum til hópsins er gert ráð fyrir 40% greiðsluþátttöku ríkisins.

Stefnt er að því að greiðsluþátttaka hefjist 1. september 2020 og til ársloka verði hægt að nýta niðurgreiðslu í einni ferð fram og til baka. Frá og með 1. janúar 2021 skuli greiðsluþátttaka miðast við þrjár ferðir fram og til baka,“ segir á vef stjórnarráðsins þar sem nánar má lesa um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×