Fótbolti

Sjö léku sinn fyrsta landsleik í Kaliforníuferðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýliðarnir með Guðna Bergssyni, formanni KSÍ.
Nýliðarnir með Guðna Bergssyni, formanni KSÍ. Mynd/KSÍ

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta byrjaði nýtt ár vel eða með tveimur 1-0 sigrum í æfingarleikjum á móti Kanada og El Salvador á dögunum en báðir leikirnir fóru fram í Kaliforníu.

Knattspyrnusamband Íslands segir frá því að sjö leikmenn hafi spilað sinn fyrsta landsleik í þessari ferð en það eru þeir Alfons Sampsted, Höskuldur Gunnlaugsson, Bjarni Mark Antonsson, Stefán Teitur Þórðarson, Daníel Leó Grétarsson, Oskar Tor Sverrisson og Ari Leifsson.

Bjarni Mark Antonsson og Oskar Tor Sverrisson gerðu gott betur en það en að spila bara fyrsta A-landsleikinn sinn því þeir höfðu aldrei spilað fyrir íslenskt landslið á ferlinum. Hinir fimm eiga allir leiki með yngri landsliðum Íslands.



Daníel Leó Grétarsson og Höskuldur Gunnlaugsson voru í byrjunarliðinu í sínum fyrtsa landsleik sem var á móti Kanada en þeir Stefán Teitur Þórðarson, Bjarni Mark Antonsson og Alfons Sampsted komu þá allir inn á sem varamenn í sínum fyrsta landsleik.

Oskar Tor Sverrisson og Ari Leifsson voru báðir í byrjunarliðinu í sínum fyrsta landsleik á móti El Salvador. Stefán Teitur Þórðarson var þá enn fremur í fyrsta leik sínum í byrjunarliði.

Stefán Teitur, Alfons Sampsted og Bjarni Mark Antonsson spiluðu einir báðar leikina af nýliðunum og það er ekki slæmt að byrja landsliðsferillinn á tveimur sigurleikjum.

Oskar Tor er elstur af þessum sjö en hann varð 27 ára í október síðastliðnum. Stefán Teitur Þórðarson, Alfons Sampsted og Ari Leifsson eru yngstir af nýliðunum sjö en þeir halda allir upp á 22 ára afmælið sitt í ár. Höskuldur Gunnlaugsson er 25 ára en þeir  Bjarni Mark Antonsson og Daníel Leó Grétarsson eru 24 ára gamlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×