Innlent

Eftir­för sem endaði með ó­sköpum

Kompás birtir sláandi myndband þar sem ölvuðum ökumanni var veitt eftirför. Sá hafði stofnað lífi fjölda annarra í hættu með hátterni sínu og óljóst hvernig hefði farið hefði lögregla ekki skorist í leikinn. Lögreglumenn eru sammála um að harka og ofbeldið í útköllum sé meira en áður.

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Skjáskot úr myndavél lögreglubíls sem veitti ölvuðum ökumanni eftirför.

Álag í starfi lögreglumanna er mikið. Þeir segja að harkan sé meiri og ofbeldið aukist. Í síðasta þætti Kompás var fjallað um mál Heklu Lindar, 25 ára stúlku, sem lést í höndum lögreglu eftir handtöku. Hekla Lind var í geðrofsástandi, hafði neytt fíkniefna og var á flótta. Þrátt fyrir lát hennar voru lögreglumennirnir ekki ákærðir í starfi þar sem viðurkenndum handtökuaðferðum var beitt. Það staðfestu bæði héraðs- og ríkissaksóknari.

Kompás fjallar nú um annað mál og birtir sláandi myndband þar sem ölvuðum ökumanni var veitt eftirför. Sá hafði stofnað lífi fjölda annarra í hættu með hátterni sínu og óljóst hvernig hefði farið hefði lögregla ekki skorist í leikinn. Í því máli var lögreglumaður ákærður fyrir brot í starfi.

Það er rosalega erfitt að taka tvö svona mál og bera þau algjörlega saman vegna þess að þau eru aldrei eins og það eru alltaf aðeins öðruvísi hlutir sem að reynir á í hverju máli fyrir sig,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

„Ég upplifði svolítið í kringum þetta mál, þá upplifði ég svolítið óöryggi hjá lögreglumönnum að þarna væri verið að kollvarpa aðferðarfræði sem hefur verið beitt innan lögreglunnar til fjölda ára. Hvort að menn væru að gera rangt,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

„Álagið er meira, bæði út af hættulegri útköllum. Vinnan er orðin hættulegri og okkur hefur fækkað og íbúum fjölgað,“segir Júlíana Bjarnadóttir, varstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hættulegri útköll og erfiðari útköll einkenna störf lögreglumanna. Gríðarlegt álag og kröfur um betri og nákvæmari rannsóknir eru gerðar til þeirra sem sinna starfinu. Ofan á það bætist við að lögreglumönnum hefur fækkað mikið á síðustu árum og móti hefur málum sem komið hafa inn á borð lögreglu hefur fjölgað í tugum prósenta. Löggæsla á Íslandi hefur lítið verið efld á síðustu árum þrátt fyrir stóraukinn íbúafjölda sem og ferðamannastraumur til landsins aukist til muna, samkvæmt upplýsingum sem Kompás vinnur með.

Eftirför endaði með ósköpum

Í maí 2018 fékk lögreglan á Suðurlandi tilkynningu um ölvaðan ökumann í uppsveitum Árnessýslu. Áður hafði komið fram að ökumaðurinn hafði beitt fólk ofbeldi á heimili og gengið berserksgang á gröfu við íbúðarhús.

Tveir lögreglubílar voru sendir á vettvang og á Skálholtsvegi mættu lögreglumenn ökumanninum. Þar var hann mældur á 114 km/klst. þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Lögreglumenn hófu eftirför og var ökumanninum gefið merki, með forgangsljósum og sírenum, að stöðva ökutækið. Það gerði hann ekki og hélt akstri áfram.

„Við tökum ákvarðanir sjálf og við þurfum að standa við þær ákvarðanir. Ég held að af einhverju leyti bera embættin ábyrgð. Það er húsbóndaábyrgð að einhverju leiti en ég held samt að við getum aldrei tekið þá ábyrgð af okkur sem einstaklingum að því að við erum að taka ákvörðun sjálf út frá einhverjum aðstæðum eða einhverjum verkefnum sem við erum í byggða á þeirri þekkingu sem að við höfum og reynslu. Ég held að það verði mjög erfitt að taka þá ábyrgð af okkur,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

Ölvaður ökumaður reynir að keyra lögreglubíl út af veginum.Vísir/Stöð 2

Mildi að ekki urðu slys þegar lögreglubílinn var keyrður út af

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að bifreiðinni hafi yfirleitt verið ekið á um 80-95 km/klst. og rásað mikið á veginum. Á Skálholtsvegi við Ósbakka hafi verið ákveðið að reyna stöðva för ökumannsins með því að loka hann á milli tveggja lögreglubíla.

Ökumaður annars lögreglubílsins gerði tilraun til þess að aka fram úr bifreið ökumannsins og þegar lögreglubíllinn var kominn upp að vinstri hlið bílsins reyndi ökumaðurinn að aka utan í lögreglubílinn með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn neyddist til þess að aka út af veginum. Ákærði missti einnig stjórn á sínum bíl og fór einnig út af veginum.

Áfram hélt eftirförin og á Skeiða- og Hrunamannavegi hélt bifreiðin áfram að rása mikið á veginum. Reynt var að ná sambandi við ökumann með kallkerfi lögreglubifreiðarinnar en án árangurs.

Í skýrslum kemur fram að umferð á Skáholtsvegi, Skeiða- og Hrunamannavegi og Þjórsárdalsvegi hafi verið nokkur og mikil hætta hafi skapast fyrir aðra ökumenn þar sem aksturslag ökumannsins hafi verið mjög rásandi.

Tveir lögreglubílar tóku þátt í eftirförinni.Vísir/Stöð 2

Ákveðið var að keyra bíl ökumannsins út af

Í Árnesi tók stjórnandi lögreglubílsins við akstri  þar sem ákvörðun hafði verið tekin um að reyna stöðva aksturinn með því að aka lögreglubílnum utan í bíl ökumannsins. Var fjarskiptamiðstöð lögreglu tilkynnt um fyrirætlanir lögreglumanna.

Þegar lögreglubílinn nálgaðist bíl ökumannsins tók hann upp á því að aka yfir á rangan vegarhelming og ljóst að hann ætlaði ekki að hleypa lögreglubílnum fram fyrir sig. Einnig helmaði ökumaðurinn snögglega í nokkur skipti og mátti litlu muna að slys yrði.

Á Þjórsárdalsvegi tókst lögreglumanni að aka utan í vinstra aftur horn bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni og valt hún eina veltu út af veginum og endaði á hjólunum, tuttugu metrum fyrir utan veg. Ökumaðurinn hlaut alvarlega áverka í bílveltunni.

Við rannsókn málsins kom í ljós að áfengismagn í blóði ökumannsins hafi verið 1,72 prómill. Á áramótin var leyfilegum vínanda í blóði ökumanns lækkað. Ökumaður telst ekki geta stjórnað ökutæki ef vínandamagn mælist 0,2 prómill í blóði. Þegar atvikið átti sér stað var leyfilegt magn 0,5 prómill.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi.Vísir/Stöð 2

Áfall fyrir lögreglu þegar lögreglumaðurinn var ákærður

Fyrir ákvörðun sína, að stöðva aksturinn var lögreglumaðurinn ákærður fyrir brot í starfi. Að hafa ekki beitt lögmætum aðferðum við stöðvun ökutækis sem áður hafði verið samþykkt af varðstjóra. Aðrir lögreglumenn sem tóku þátt í eftirförinni voru sammála um að aðgerðin hefði þótt nauðsynleg.

Fyrir hafi legið að lögreglumaðurinn sem beitti aðferðinni hafi áður beitt henni við störf sín og hlotið þjálfun í notkun hennar. Þá er greint frá því að ákvörðunin hafi verið yfirveguð, vönduð og vel undirbúin hvað varðar staðarval að framkvæma hana, með hliðsjón af hættulegum vegarkafla sem var fram undan.

Dómur féll í máli lögreglumannsins í október þar sem hann var sýknaður fyrir að hafa ekki gætt lögmætra aðferða í aðgerðinni.

Lögreglubílnum var ekið utan í bíl ökumannsins til að stöðva för hans.Vísir/Stöð 2

Héldu að verið væri að kollvarpa viðurkenndri aðferðarfræði

„Ég upplifði svolítið í kringum þetta mál, þá upplifði ég svolítið óöryggi hjá lögreglumönnum að þarna væri verið að kollvarpa aðferðarfræði sem hefur verið beitt innan lögreglunnar til fjölda ára. Hvort að menn væru að gera rangt. í þessu tilfelli er fengin heimild, það er að segja varðstjóri upplýstur um þessa aðgerð og hann samþykkir. Það er allt gert rétt í ferlinu vissulega brá mönnum og menn urðu óöruggir á sínu hlutverki og ekki bara hjá okkur heldur fundum við það bara í lögreglunni almennt,“ segir Sveinn Kristján.

Í þessum tveimur málum sem Kompás hefur fjallað um eru annars vegar tveir lögreglumenn ekki ákærðir þar sem einstaklingur lætur lífið í höndum þeirra. Hins vegar er lögreglumaður ákærður fyrir að slasa ökumann. Hvað er það sem ræður þeirri ákvörðun?

„Það er rosalega erfitt að taka tvö svona mál og bera þau algjörlega saman vegna þess að þau eru aldrei eins og það eru alltaf aðeins öðruvísi hlutir sem að reynir á í hverju máli fyrir sig. Þetta er það sem er okkar starf og það er okkar mat og við þurfum bara að standa og falla með því en þetta var niðurstaðan í þessum tveimur málum að fara þessar ólíku leiðir.“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

Kom það ykkur á óvart að lögreglumaðurinn hafi verið ákærður í þessu máli?

„Já að vissu leyti kom það okkur á óvart að því að þetta er svo sem aðferð sem hefur verið beitt til fjölda ára. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem að þessari aðferð er beitt í eftirför. Við vorum afar glöð með niðurstöðuna. Hún staðfesti það að við erum að gera rétt og það sem hefur verið kennt eru réttar aðferðir þó svo að það hafi kannski vantað þessa staðfestingu,“ segir Sveinn Kristján.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.Vísir/Vilhelm

Er framkvæmdin refsiverð eða er hún ekki refsiverð

 „Það gildir auðvitað um þessi mál eins og öll önnur sakamál að það er alltaf þetta mat sem þarf að fara fram. Bæði þarf að full rannsaka málið og reyna að átta sig á því hvað gerðist. Þegar að við erum svo komin með alla myndina í málinu að þá kemur næst til skoðunar, er þessi háttsemi sem að liggur þá fyrir að hafi verið framkvæmd, er hún refsiverð eða er hún ekki refsiverð,“ segir Kolbrún.

Lögreglumenn á vettvangi.Vísir/Stöð 2

Brestir í stoðum lögreglu vegna langvarandi álags

Bráðamóttaka Landspítalans hefur verið mikið til umfjöllunar vegna álags og manneklu. Heilbrigðiskerfið er hluti af innviðum samfélagsins og það er lögreglan líka.

Öll tölfræðileg gögn sýna að verkefnum lögreglu um allt land hefur fjölgað. Harkan aukist og ofbeldið meira. Þá er lögreglumönnum, sem Kompás hefur rætt við, tíðrætt um hve umfangsmikil skipulögð glæpastarfsemi er orðin á Íslandi. Eftirlit með störfum lögreglumanna er mun meira og því hafa lögreglumenn orðið varir.

Fleiri en hundrað kærur og kvartanir og sjö ákærur

Í tölfræði nefndar um eftirlit með störfum lögreglu má sjá að á síðasta ári hefur verið kvartað eða kært oftar en hundrað sinnum undan framferði lögreglumanna við störf sín. Frá árinu 2016 hefur héraðssaksóknari ákært 11 lögreglumenn fyrir brot í starfi. Af þeim hafa sjö verið sakfelldir.

Það var kært eða kvartað undan framferði lögreglumanna við störf sín oftar en hundrað sinnum á síðasta ári.grafík/hafsteinn

Segir lögreglumenn finna fyrir því að fylgst sé með þeim

„Ég segi kannski ekki óöruggt en við erum orðin meira meðvituð um það að það er eftirlit með því sem við erum að gera sem að við getum kannski líka sagt að sé jákvætt. Það er ekki eðlilegt að það sé enginn sem fylgist með því sem við erum að gera. Ég finn það að menn eru oft á tíðum skeptískir út á það hvað þeir eru gerðir persónulega ábyrgir fyrir,“ segir Sveinn Kristján.

„Okkur finnst vera færast í vöxt að það sé verið á ásaka lögreglumenn fyrir að gera hluti þeir í raun og veru ekki gerðu,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Klárlega mætti huga að því í stjórnsýslunni að verklagsreglur séu skýrari. Að það séu klárar verklagsreglur fyrir marga þessa þætti sem að við höfum verið að vinna, já við getum sagt, á hefðinni eða vananum . Þannig að þeir hlutir séu skýrari þannig að við séum ekki að lenda í þessum málum,“ segir Sveinn Kristján.

Fækkun hjá lögreglu þrátt fyrir fleiri íbúa og aukinn ferðamannastraum

Lögreglumönnum á Íslandi hefur fækkað mikið frá aldamótum þrátt fyrir að landsmönnum hafi fjölgað og ferðamannastraumurinn hafi aukist til muna. Árið 2004 voru rúmlega 293 þúsund íbúar á Íslandi og 669 lögreglumenn.Í byrjun árs 2018 var íbúafjöldinn kominn í rúmalega 348 þúsund íbúa og lögreglumönnum fækkað í 613. Að þessu viðbættu komu 2.343.773 ferðamenn til landsins.

„Hjá þessu embætti hefur lögreglumönnum fækkað eitthvað á milli 40-50 frá 2008 og á sama tíma hefur verkefnum fjölgað gífurlega, í tugum prósenta, og það er komin aukin krafa á betri rannsóknir og nákvæmari rannsóknir. Þannig að það má segja það að álagið hafi aukist til muna,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi fækkun kemur heim og saman við svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, um fjölda starfa hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2008 til 2018.

Fjallað var manneklu hjá Lögreglunni í greinum í Morgunblaðinu árið 2015, en lítið breyst. Hætta á mistökum í starfi til staðar.

Lögreglumenn ættu að vera að lágmarki 840

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um Umhverfi löggæslu næstu fjögur ár er fjallað um mannafla og styrk lögreglunnar. Þar kemur fram að yfirstjórn lögreglu bendir á að fjöldi lögreglumanna haldist ekki í hendur við samfélagsbreytingar síðustu ára og þær kröfur sem þeim fylgja.

Þar kemur einnig fram að ef miðað er við mat ríkislögreglustjóra sem kemur fram í skýrslu innanríkisráðherra um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland, þurfa lögreglumenn að lágmarki að vera 860 talsins. Rúmlega 200 fleiri en nú er. Þegar þessi viðmið voru sett fram, árið 2013, var hin mikla fjölgun ferðamanna til landsins ekki orðin að veruleika.

Kompás fékk að fylgja eftir lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu á helgarvakt, við störf sín. Á þeim tíma var stöðugt áreiti og ítrekað verið að senda lögreglumenn í verkefni.

„Ef að það eru ekki til lausir bílar til þess að senda í verkefni, þar sem að við myndum kannski vilja hafa fleiri en eina áhöfn, að þá getur það auðvitað komið fyrir að málið þróast öðruvísi heldur en ef lögregla hefði getað sinnt með fullnægjandi liðstyrk eða styrk á vettvangi frá byrjun,“ segir Ásgeir Þór.

Lögreglumenn sem Kompás ræddi við eru sammála um að þeim stafi hætta af aukinni hörku og ofbeldi.

Skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi umfangsmikil

Starfsaðstæður hafa breyst mikið og eru lögreglumenn sem Kompás ræddi við sammála um að þeim stafi hætta af aukinni hörku og ofbeldi. Í afbrotatölfræði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í október síðastliðnum höfðu verið skráð 34% fleiri tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár á undan.

„Álagið er meira, bæði út af hættulegri útköllum. Vinnan er orðin hættulegri og okkur hefur fækkað og íbúum fjölgað. Þannig að þetta er allt auka álag á lögregluna á öllum sviðum,“ segir Júlíana Bjarnadóttir, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Staðan sé þannig í dag að lögreglumenn ná í fáum tilfellum að sinna frumkvæðisverkefnum eins og umferðar- og hverfaeftirliti. Þá er starfsmannavelta í almennri löggæslu mjög mikil.

„Við erum kannski meira í því að sinna því sem þarf að sinna og það sem við vorum að sinna meira áður, það er bara eftirliti, situr bara á hakanum í kjölfarið,“ segir Júlíana.

„Auðvitað þurfa lögreglumenn að vera fleiri. Það gefur auga leið“

Að þínu mati, er lögreglan vel í stakk búin til þess að sinna öllum þeim verkefnum sem hér koma upp?

„Auðvitað þyrftu lögreglumenn að vera fleiri, það bara gefur auga leið og lögreglumenn vinna mjög erfitt starf á Íslandi. Það er bara þannig. Það er auðvitað eitt af því sem við tökum inn í við okkar mat í þeim málum sem við erum að afgreiða hérna. Við verðum auðvitað að leggja heildarmat á í hvaða aðstæðum var lögreglumaðurinn þegar að hann tók einhverja ákvörðun,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari.

Hvernig á löggæsla á Íslandi að vera til framtíðar. Einn af helstu innviðum íslensk samfélags. Hvað þolir álagið lengi og þarf eitthvað að gerast til þess að hlutirnir breytist. Dómsmálaráðherra skipaði um áramót nýtt Lögregluráð, samráðsvettvang lögreglustjóra í landinu en markmiðið er að tryggja hæfni lögreglunnar til þess að takast sameiginlega á við þá áskoranir sem eru uppi hverju sinni.

Hafir þú áhugaverð umfjöllunarefni fyrir Kompás er hægt að hafa samband við okkur í gegnum netfangið kompas@stod2.is.


Tengdar fréttir

Misstu dóttur sína eftir átök við lögreglumenn

Síðastliðið vor lést ung kona eftir átök við lögreglumenn sem höfðu afskipti af henni þegar hún var í geðrofsástandi. Lögreglumennirnir voru ekki ákærðir fyrir brot í starfi þrátt fyrir að réttarmeinafræðingur fullyrði að aðgerðir þeirra hafi átt umtalsverðan þátt í dauða hennar. Í Kompás ræðum við við foreldra konunnar sem telja lögreglu hafa farið offari við handtökuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×