Sport

Serena hefur unnið mót á fjórum mismunandi áratugum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams með bikarinn og dóttur sína Alexis Olympiu.
Serena Williams með bikarinn og dóttur sína Alexis Olympiu. Getty/Hannah Peters

Bandaríska tenniskonan Serena Williams vann í gær sitt fyrsta mót eftir að hún eignaðist dóttur sína fyrir tveimur og hálfu ári síðan.

Serena Williams vann þá ASB Classic mótið sem fór fram í Auckland í Nýja Sjálandi. Serena vann úrslitaleikinn á móti löndu sinni Jessica Pegula 6-3, 6-4.



Serena Williams eignaðist dótturina Alexis Olympia 1. september 2017. Hún hafði oft verið nærri sigri á móti enda hafði þessi sigursæla tenniskona komist í úrslitaleikinn á þremur risamótum. Serena varð hins vara að sætta sig við tap í úrslitaleiknum á opna bandaríska mótinu 2018 og 2019 sem og á úrslitaleik Wimbledon. Nú náði hún loksins að fagna sigri.

„Þetta er góð tilfinning. Þetta hefur tekið langan tíma og ég held að þið sjáið á mér að þetta er léttir. Það er mjög ánægjulegt að vinna úrslitaleik. Þetta er mikilvægur sigur fyrir mig og ég vil byggja ofan á þetta. Þetta er skref í átt að næsta markmiði,“ sagði hin magnaða 38 ára gamla Serena Williams.

Næst á dagskrá hjá Serena Williams er einmitt að vinna 24 risatitilinn og framundan er opna ástralska mótið í Melbourne.

Serena Williams ákvað eftir sigurinn í Auckland, að gefa allt verðlaunafé sitt, 43 þúsund dollara, í baráttuna gegn gróðureldunum í Ástralíu. Það eru 5,3 milljónir íslenskra króna.



Serena Williams gerði samt meira en að vinna bara þetta mót. Sigur hennar um helgina þýðir að hún hefur nú unnið tennismót á fjórum mismunandi áratugum sem er magnað afrek hjá þessari miklu íþróttakonu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×